Brá heldur í brún þegar kvikustrókarnir ruku upp

Mynd: Sólný Ingibjörg Pálsdóttir / RÚV
Um miðnæsturbil í gærkvöld breyttist eldgosavirknin nokkuð þegar sá mikli stöðugleiki sem hefur einkennt gosið frá því að það hóst 19.mars.

Sólný Ingibjörg Pálsdóttir býr í Grindavík og hún var ein þeirra sem fréttastofa tók tali nóttina sem gosið hófst í beinni sjónvarpsútsendingu. Síðan þá hefur hún farið sex sinnum upp að gosinu og haft það í bakgarðinum hjá sér þar sem hún býr í útjaðri bæjarins. 

Í gærkvöldi fór fjölskyldan upp að gosinu og þegar þau voru í þann mund að halda heim á leið fannst þeim breyting verða á gosvirkninni. Þau stöldruðu við og tóku meðfylgjandi myndskeið en þar sést hvernig gígurinn virðist hægja verulega á virkninni, en taka svo hressilega við sér eins og margir hafa eflaust tekið eftir í dag. Þá stígur kvikustrókurinn allt að 300 metra upp í himininn með tilkomumiklu sjónarspili.

Sólný segist í samtali við fréttastofu enn vera að ná sér niður eftir þessa miklu lífsreynslu sem hún og fjölskyldan upplifði við gosið í gærkvöldi. Þetta hafi verið ævintýri líkast og héldu þau ef til vill að gosinu væri í þann mund að ljúka. Hún veitti góðfúslegt leyfi til að birta meðfylgjandi myndskeið.