Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

16 hermenn og 24 vígamenn felldir í Níger

02.05.2021 - 23:56
epa08918741 A boy from Niger walks in the village of Tchombangou following a deadly attack which killed seventy villagers in Tchombangou in Niger's Tillabéri region, Niger 03 January 2021 (issued 04 January 2021). According to Niger's prime minister Brigi Rafini one hundred have been killed in villages in Niger's Tillabéri region following simultaneous attacks on the villages of Tchombangou and  Zaroumdareye near the border with Mali. No group has claimed responsibility for the attacks.  EPA-EFE/STR BEST QUALITY AVAILABLE
Vígasveitir íslamista vaða uppi í vesturhluta Níger og fara þar um, myrðandi, rænandi og ruplandi. Ósjaldan aka þeir inn í sveitaþorp, drepa alla sem til næst og leggja eld að híbýlum fólks, eins og þeir gerðu í þessu þorpi, Tchombangou, í janúar 2021. Mynd: epa
Glæpamenn felldu sextán nígerska hermenn í Tahoua-héraði í vestanverðu Níger í gær, laugardag. Fyrr í vikunni felldu nígerskir hermenn 24 „grunaða hryðjuverkamenn" úr röðum öfgasinnaðra íslamista þegar þeir reyndu að flýja úr haldi í nágrannahéraðinu Tillaberi.

Þungvopnaðir menn, sem stjórnvöld hafa einfaldlega lýst sem glæpamönnum, sátu fyrir eftirlitssveit nígerska hersins í Tahoua-héraði, nærri landamærum Malí, í gær. Tókst þeim að fella 16 hermenn og særa sex til viðbótar, að sögn héraðsstjórans Ibrahims Miko. Eins hermanns er saknað.

Grunaðir um að ráðgera árás á markaðsbæ

Á miðvikudag handtók herinn 26 menn í Tillaberi héraði eftir stutt en snörp átök. Í tilkynningu varnarmálaráðuneytisins segir að mennirnir hafi verið handteknir eftir að ábending barst um að þeir væru að undirbúa árás á markaðsbæinn Banibangou.

Einn þeirra lést skömmu síðar af sárum sínum en þeir sem eftir lifðu freistuðu þess að flýja úr haldi aðfaranótt fimmtudags, þar sem þeir biðu þess að verða fluttir til nærliggjandi herstöðvar. „Eftir nokkur viðvörunarskot, sem þeir höfðu að engu, voru 24 fangar skotnir til bana en einum tókst að flýja,“  segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Íslamistar viðhalda vargöld í Tillaberi-héraði

Hvorttveggja Banibangou og herstöðin sem flytja átti fangana til eru í Tillaberi-héraði, sem liggur að landamærum Malí og Búrkína Fasó. Vígamenn íslamista, með  tengsl við al Kaída og Íslamska ríkið, vaða þar uppi, fara um í hópum og myrða mann og annan, án þess að stjórnvöld fái rönd við reist. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV