Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Þarna var sjávarútvegurinn að fullnýta hráefnið“

Mynd: Alla leið / RÚV

„Þarna var sjávarútvegurinn að fullnýta hráefnið“

01.05.2021 - 13:35

Höfundar

Álitsgjafar Alla leið eru höggdofa yfir framlagi Moldóvu til Eurovision 2021. „Ég verð að komast á skemmtistað, tengja græjurnar mínar og ýta á play ... Við skulum vona að hún sleppi því að rífa munninn af samt.“

Farið verður yfir lögin sem etja kappi við Daða okkar Frey og Gagnamagnið í Eurovision síðar í mánuðinum í Alla leið sem er á dagskrá RÚV í kvöld. Þar á meðal er söngkonan Natalia Gordienko sem flytur lagið SUGAR fyrir hönd Moldóvu í keppninni.

„Þarna var sjávarútvegurinn að fullnýta hráefnið,“ segir Einar Bárðarson og gefur laginu 8 stig af 12 mögulegum í einkunn.

Regína Ósk er á sömu línu og gefur því einnig 8 stig. „Þetta minnir pínulítið á Britney Spears og myndbandið er geggjað. Það er allt tekið fram. Þetta minnir á Katy Perry og Silvíu Nótt. Mig langar bara að fara að dansa og sé mig fyrir mér á einhverjum klúbbi – eins og ég er alltaf á allar helgar.“

Helga Möller segir pass. „Ég hugsa að þetta sé aldurinn. Þetta höfðaði alls ekki til mín, nema ísarnir undir restina sem voru dansandi með henni. Þeir voru góðir. Þeir fá 2 stig.“

Sigurður Þorri Gunnarsson er yfir sig hrifinn. Gefur 10 af 12. „Mér finnst þetta SKEMMTILEGT með hástöfum. Og skipsflautan í þessu lagi er geggjuð. Þetta er hljóðheimur sem er mjög vinsæll í Austur-Evrópu. Ég hlustaði á rússneska útvarpsstöð um daginn í klukkutíma og það var nánast stanslaust skipsflaut. Þetta er mjög töff.“

Ekki missa af Alla leið á RÚV klukkan 19:45 í kvöld þar sem framlag Íslands, 10 Years með Daða Frey og Gagnamagninu, verður tekið til kostanna. 

Tengdar fréttir

Tónlist

„Það fyrsta sem ég hugsa er: Er honum alvara?“

Tónlist

„Virðist vera góð auglýsing fyrir Sputnik bóluefnið“