Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stéttabaráttan heillar kvikmyndabuffið Vilhelm Neto

Mynd með færslu
 Mynd: Bíóást - RÚV

Stéttabaráttan heillar kvikmyndabuffið Vilhelm Neto

01.05.2021 - 12:29

Höfundar

Skemmtikrafturinn og leikarinn Vilhelm Neto reif sig upp fyrir allar aldir á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins til að fara yfir fimm kvikmyndir sem eru í uppáhaldi hjá honum.

Vilhelm settist niður með Felix Bergssyni í Fram og til baka á Rás 2 og sagði frá fimm kvikmyndum sem haft hafa áhrif á hann að síðustu.

Sorry we missed you

Mynd með færslu
 Mynd: cc - BBC Films
Sorry We Missed You.

„Þetta er nýleg mynd og fjallar um nútímasamfélag sem við búum í undir kapítalisma. Þetta er mynd sem er nálægt því að radíkalísera mann þegar maður sér hana. Hún er svo rosalega vel leikin og leikstýrð og er bara ótrúlega erfið og mjög pólitísk. Það er hryllilega erfitt að sjá að það er til svo stór hópur fólks sem er ekki með neitt öryggisnet þannig séð, þannig er samfélagið stundum byggt.“

La grande belezza

Mynd með færslu
 Mynd: cc - Medusa film
La grande belezza.

„Þessi peppar mann í gang. Hún fjallar um gamlan listamann, sem mér fannst mikil orka í, hún er tekin upp á Ítalíu og ógeðslega skemmtilega gerð. Rosalega ítölsk mynd. Þetta er fallegur óður til lífsins og að eldast. Ég er mjög hrifinn af ítölskum myndum ... Þær ná mjög góðu jafnvægi milli þess að vera heimspekilegar og fallegar. Svo er ítalska svo fallegt tungumál. Það er mjög auðvelt að horfa á ítalskar myndir þegar maður er að hlusta á þessa fegurð.“

La cage dorée 

Mynd með færslu
 Mynd: - - zazi films
La cage dorée.

„Þessi mynd fjallar um það að vera portúgalskur innflytjandi í nýju landi. Þetta er kannski ekki Cannes-bíómynd en hún er mjög falleg, skemmtileg og fyndin. Hún gerist í Frakklandi þar sem er stórt samfélag portúgalskra innflytjenda.“

Adams æbler

Mynd með færslu
 Mynd: - - Nordisk film

„Anders Thomas Jensen hefur gert frábærar töfraraunsæismyndir undanfarið. Ég hef séð allar myndirnar hans og mér þótti svo vænt um karakterana sem koma fram í þessari mynd. Það hjálpaði mér svo að sjá karakter sem var svo jákvæður að það var hlægilegt, það er náttúrulega Mads Mikkelsen sem leikur hann. Ég held að það sé mikilvægt að vera svo jákvæður að það er súrt, það hjálpar manni í gegnum lífið stundum. Ég hef stundum gengið í gegnum erfiða tíma og það er gott að minna sig á það að þetta er allt bara gaman, þetta er bara rugl.“

Parasite

Mynd með færslu
 Mynd: cc - CJ Entertainment
Parasite.

„Þetta er frábært mynd sem kemur manni í opna skjöldu. Bong Joon-Ho hefur gert fullt af frábærum myndum en þessi var nú eitthvað annað. Það eru margar eftirminnilegar senur í henni en hér er það stéttabaráttan sem heillar mig.“

Tengdar fréttir

Tónlist

„Eyþór minn, við erum ekki skilin er það?”

Menningarefni

„Hann er bara eldri bróðir minn í dag“

Fólk í fréttum

Tók Tvíhöfða fram yfir Pamelu Anderson

Kvikmyndir

Fimm myndir í uppáhaldi hjá Sölva Tryggvasyni