Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Nóg til í ríku landi

01.05.2021 - 13:54
Mynd með færslu
Drífa Snædal, forseti ASÍ Mynd: ASÍ
Baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, verður öðru vísi í dag eins og í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins. Ekki verða útifundir eða kröfugöngur heldur sjónvarpsþáttur heildarsamtaka launafólks í kvöld.

Yfirskrift 1. maí er "Það er nóg til". Drífa Snædal forseti ASÍ segir vísað til þess að við búum í ríku landi.

„En hins vegar er ekki alveg sátt um það hvernig auðæfunum er skipt. Við ættum að geta búið þannig að allir búi við öryggi og afkomu en það er svo sannarlega ekki þannig um hvað þurfi til til þess að það náist sátt í þessu samfélagi. Hvað er einfaldast að ráðast í þar? Við búm við mjög góð jöfnunartæki og við búum við tæki í okkar samfélagi sem getur gert það að verkum að þeir sem aflögu eru færir, hafa aðgang að auðlindunum okkar til dæmis, geta greitt meira inn í sameiginlega sjóði. Og það á að sjálfsögðu að vera mjög hávær krafa,“ segir Drífa Snædal forseti ASÍ.

Í ASÍ eru tveir þriðju hlutar launafólks í landinu, í kringum 140 þúsund manns. Í skýrslu Kjaratölfræðinefndar sem út kom í gær kom fram að tímakaup hefði hækkað um 14 til 29 prósent síðan í mars 2019 og að þeir lægstlaunuðu hefðu hækkað mest enda var samið um krónutöluhækkanir í síðustu kjarasamningum. 

„Það er vissulega ánægjulegt að það að einhverju leyti tókst vel upp með síðustu kjarasamninga þ.a. þessi áhersla á krónutöluhækkanir hefur skilað sér. En hins vegar erum við að sjá launaskrið hjá öðrum stéttum líka og erum að fylgjast mjög vel með því hvort að launaskriðið í efstu lögunum raungerist. Við erum stöðugt að fá vísbendingar um það að varnarbaráttan fyrir lægstu kjörum er áfram barátta sem þarf að heyja á hverjum einasta degi,“ segir Drífa.