Innsýn í draumaheim rannsóknarblaðamannsins

Mynd: Bíóást / RÚV

Innsýn í draumaheim rannsóknarblaðamannsins

01.05.2021 - 15:18

Höfundar

Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri fréttaskýringaþáttarins Kveiks, trúir því að kvikmyndin Spotlight hafi haft meiri áhrif á líf hennar en hún gerði sér í fyrstu grein fyrir. „Ég efldist enn frekar í þeirri trú að það sem við værum að gera skipti máli.“ Spotlight er í Bíóást í kvöld.

Spotlight er Óskarsverðlaunamynd sem segir sanna sögu rannsóknarteymis dagblaðsins The Boston Globe sem afhjúpaði barnaníð og hylmingu yfir glæpum innan kaþólsku kirkjunnar. The Boston Globe hlaut Pulitzer-verðlaunin fyrir umfjöllunina.

Sá myndina mánuði fyrir afhjúpun Panama-skjalanna

Þóra Arnórsdóttir man vel þegar hún sá Spotlight fyrst. „RÚV bauð öllu starfsfólki að sjá myndina og þetta var líka innan við mánuði áður en við sendum út Kastljósþáttinn um Panama-skjölin. Þannig að sú vinnsla var í fullum gangi. Ég man alveg að ég efldist enn frekar í þeirri trú að það sem við værum að gera skipti máli, ekki bara í þessu tilfelli heldur bara í okkar starfi.“

Myndin býður upp á innsýn í draumaheim blaðamannsins. „Þarna ertu með fjóra toppblaðamenn sem eru að vinna saman að einu máli í allt upp undir ár,“ segir Þóra og rifjar upp að ári seinna hafi hugmyndin að fréttaskýringaþættinum Kveik verið langt gengin. „Ég vil alveg trúa því að þessi mynd hafi haft undirmeðvitundaráhrif á útvarpsstjóra, fréttastjóra, dagskrárstjóra og svo okkur öll, fréttamennina sem höfðu gengið með þetta í maganum lengi. Þannig að myndin gæti alveg haft meiri áhrif á líf mitt en ég veit af.“

Samansúrrað vald

Spotlight fjallar um leið um tímamótablaðamennsku. „Watergate er eitt en þetta mál sem var þarna svipt hulunni af, það er að segja áratugamisnotkun presta í kaþólsku kirkjunni, sem lögðust sérstaklega á börn sem komu úr fátækum fjölskyldum og brotnum fjölskyldum, börn sem ekki gátu borið hönd fyrir höfuð sér. Þarna er dregið svo vel fram hvernig valdið er samansúrrað, það er lögreglan, það eru stjórnmálin, dómsvaldið, fjölmiðlarnir og það er kirkjan. Og kirkjan í krafti þessa ægivalds getur ákveðið að standa fyrir utan lög og rétt.“

Hún fór ósjálfrátt að hugsa um stöðuna á Íslandi meðan hún horfði aftur á myndina.  „Við erum náttúrulega lítið samfélag, Ísland, við þekkjumst mikið til og við erum skyld. Alveg er ég viss um að það eru svona mál, kannski ekki svona mál, ég ætla rétt að vona ekki, en samt sem áður mál sem við þyrftum að taka á og segja frá en við höfum einhvern veginn kosið að loka augunum fyrir því af því að við erum svo vön því að svona sé þetta. Þegar utanbæjarmaðurinn kom, eins og rassálfur, og fór að pota: Af hverju eruð þið ekki að segja frá þessu hræðilega máli? Þá fór allt af stað. Þannig að við erum opin fyrir ábendingum!

Spotlight er í Bíóást á RÚV klukkan 21:50 í kvöld.