Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki stöðugleiki þegar gæðunum er misskipt

Mynd: Samsett mynd / RÚV
Þótt engar væru kröfugöngurnar í dag þá er kjarabaráttan í fullum gangi. Forseti ASÍ segir stöðugleika ekki í boði þegar sumir valsi um auðlindir landsins og maki krókinn á meðan aðrir nái ekki endum saman. Formaður BSRB telur hættu á auknum ójöfnuði. 

Síðast var farið í kröfugöngur á baráttudegi verkalýðsins 1. maí 2019. Það er annar bragur á baráttunni þegar fólk getur ekki hist og horfir á ávörp forkólfana á netinu. 320 kjarasamningar hafa verið gerðir síðan í mars 2019. 

„Ég held að það sem við erum að varpa ljósi á núna, 1. maí, í tilefni þessa dags, er að þessi endalausa krafa um stöðugleika er ekki í boði af því að við erum ekki komin þangað að við séum búin að ákveða hvernig á að skipta gæðunum í þessu samfélagi,“ segir Drífa Snædal forseti ASÍ.

Þannig að svona gæðunum að ykkur finnst er enn misskipt?

„Augljóslega. Á meðan sumir geta valsað um auðlindirnar okkar og makað krókinn á meðan aðrir ná ekki endum saman, búa í óviðunandi húsnæði, búa ekki við það öryggi sem er bara mannréttindi að augljóslega þá er ekki hægt að mæta einhverjum kröfum um stöðugleika.“

Stytting vinnuviku vaktavinnufólks tók gildi í dag. Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB segir vaktavinnufólk fullt tilhlökkunar enda hafi vinnuvika þessa hóps ekki verið stytt í 50 ár. 

„Yfirskrift dagsins er: Það er nóg til og við erum þá að horfa til þess að við viljum byggja upp réttlátt og sanngjarnt samfélag þar sem er nægt til skiptanna,“ segir Sonja Ýr.

Vantar mig upp á það?

„Það sem við vitum auðvitað að í kjölfar efnahagsástandsins og faraldursins eins og hann er núna að þá er hætta á að ójöfnuður aukist. Atvinnuleysi er mjög hátt og krafan okkar hefur verið sú að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og bótatímabilið verði lengt en síðan auðvitað líka að það verði sköpuð góð störf.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV