„Ég einsetti mér að hlífa engum“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég einsetti mér að hlífa engum“

01.05.2021 - 08:45

Höfundar

Kjartan Ólafsson segir ljóst að eitt og annað sem kemur fram í frásögn hans um sögu kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi frá upphafi þriðja áratugarins sé ekki þægilegt fyrir suma af hans gömlu félögum og þeirra niðja að lesa. Kjartan, sem er eini maðurinn enn á lífi úr innsta hring Sósíalistaflokksins, segir frá þessum sögulegu tímum í bók sinni Draumar og veruleiki þar sem hann dregur ekkert undan.

Kjartan Ólafsson skipulagði fyrstu Keflavíkurgönguna árið 1960 og var einn stofnenda Samtaka hernámsandstæðinga sama ár. Hann starfaði í innsta hring Sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum, sat um tíma á Alþingi og var um árabil ritstjóri Þjóðviljans. Fyrir jólin sendi hann frá sér bókina Draumar og veruleiki sem fjallar um það tímabil á Íslandi þegar hreyfing kommúnista fór að láta að sér kveða í upphafi þriðja áratugarins og áttu allar götur síðan róttæk sjónarmið öfluga talsmenn. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2020.

Eini maðurinn á lífi úr innsta hring Sósíalistaflokksins

Kjartan áttaði sig á því þegar hann var að nálgast áttrætt að hann væri eini maðurinn á lífi sem má segja að hafi verið í innsta hring Sósíalistaflokksins. „Ekki Kommúnistaflokksins, ég var of ungur til þess, og ég fór að finna fyrir því um það leyti að það væri kannski skylda að láta eitthvað til mín taka,“ segir Kjartan um ástæður þess að hann ákvað að skrifa bókina. Hann ákvað strax að draga ekkert undan í frásögn sinni þegar hann var sestur við skriftir, jafnvel þó einhver kynni að móðgast. „Ég vissi að þarna væri eitt og annað sem var ekkert þægilegt fyrir alla af mínum gömlu félögum og þeirra niðja að fá framan í sig en ég einsetti mér að hlífa engum.“

Draumar og veruleiki toguðust á

Nafn bókarinnar, Draumar og veruleiki, vísar til þess hvernig draumarnir rákust illa á við veruleikann á þessum tíma og að það sem fólk lagði trúnað sinn á reyndist vera blekking ein. „Menn voru sannfærðir um að draumarnir vísuðu veginn til framtíðarinnar og þessa mikla þjóðfélags jafnréttis og réttlætis,“ rifjar Kjartan upp. Annað hafi komið á daginn sem var áfall fyrir marga sem börðust fyrir draumunum. „Það sem kom í ljós þegar árin liðu var að þeir sem fóru með völdin í Sovétríkjunum og þeirra „leppríkjum“ sem kalla mátti, þeirra veruleiki er kominn eins langt frá þessu upphafi og draumum eins og hægt er að komast.“

Erfitt að láta af Sovéttrúnaðinum

Fólk átti þó miserfitt með að láta af Sovéttrúnaði sínum samkvæmt Kjartani og sumir vildu alls ekki horfast í augu við veruleikann sem blasti við þegar draumarnir urðu að engu. „Þetta var hjá þeim sem voru sannfærðir marxistar, og sannfærðir um að Sovétríkin væru hvað sem öðru liði, forysturíki allrar alþýðu heimsins sem hlyti að lokum að komast í rétta höfn þó eitthvað bæri út af á leiðinni.“ Þeim heittrúuðustu hefði verið illa brugðið. „En ég var aldrei haldinn þessu trúarlega viðhorfi sjálfur,“ segir Kjartan.

Mynd með færslu
 Mynd: Draumar og veruleiki - RÚV
Halldór Laxness er var á meðal þeirralistamanna sem hélt lengi tryggð sinni við Sovétríkin samkvæmt Kjartani.

Halldór Laxness hélt tryggð við Sovétríkin lengi

Hreyfingin var þrælsterk á meðan hún lifði og í forsvari fyrir hana voru verkalýðsfélögin og verkalýðsbaráttan öll annars vegar, og hins vegar menntamenn. „Það var hinn fronturinn og það var bara meginþorrinn af helstu skáldum þjóðarinnar og málararnir.“

Halldór Laxness var á meðal þeirra sem hélt tryggð sinni við Sovétríkin til 1956, samkvæmt Kjartani. „Hann hvikar ekkert í því fyrr en kemur að þessum stóru tímamótum með Khrusjovs-ræðunni og innrásinni í Ungverjaland. Halldór var alltaf í heiðurssætinu á framboðslistanum í Reykjavík,“ segir Kjartan.

Mannskepnan er góð og ill burtséð frá þjóðskipulagi

Eftir langt pólitískt ferðalag sitt segist Kjartan ekki beint líta á sig sem sósíalista lengur, enda hafi orðið ekki skýra merkingu. „Sósíalismi sem hugsjón er ágætur að mínu viti en ég er ekkert mikið fyrir hugsjónir, það dugar mér ákaflega skammt,“ segir hann. Ýmislegt vanti upp á marxismann því þó að í honum felist skarpar skilgreiningar á auðvaldsþjóðfélaginu sem standist dóm sögunnar, sé spurningunni um hvað eigi að taka við aldrei almennilega svarað.

„Það verður aldrei, því grunnforsendan fyrir marxismanum var að með réttlátum þjóðfélagsháttum væri hægt að gera mennina góða,“ segir Kjartan sem hefur efasemdir um það. „Menn hugsuðu sem svo: Ef búið er að útrýma arðráninu og stéttaandstæðunni þá verða allir góðir hver við annan. En það er einu sinni svo að mannskepnan er miklu flóknari en þetta. Hún er hvort tveggja í senn, góð og ill, og þannig mun það ætíð vera hvernig sem þjóðskipulagið kann að vera.“

Hefur annan skilning á mannskepnunni en lærifeðurnir

Af þessum sökum hafi trúin á marxismann verið byggð á draumórum. „Ég vil ekki gera lítið úr þessum ágætu hugsjónamönnum sem voru mínir lærifeður þegar ég var unglingur, þetta voru að mestu leyti ágætir menn og alveg sérstaklega þetta - að skara aldrei eld að eigin köku og fórna öllu mögulegu fyrir sínar eigin hugsjónir,“ segir Kjartan. Hann beri virðingu fyrir þeim sem aðhylltust þá hugsjón, „en ég hef auðvitað allt annan skilning á manneskjunni en þeir höfðu.“

Egill Helgason ræddi við Kjartan Ólafsson í Kiljunni á RÚV.