Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Drífa Snædal leggur áherslu á samtryggingu í ávarpi

01.05.2021 - 10:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir í 1. maí ávarpi sínu að skilningsleysi felist í þeim orðum stjórnvalda og viðsemjenda verkalýðshreyfingarinnar að laun séu of há og að auka þurfi aga á vinnumarkaði.

Drífa segir að engin sátt verði hér á landi á meðan þeir ríkustu komist hjá því að greiða í sameiginlega sjóði, hvort sem það sé með skattaundanskotum, skattaívilnunum eða aflandsfélögum. „Það er nóg til“ er yfirskrift 1. maí að þessu sinni.

Drífa segir enga sátt skapast á meðan risarnir í sjávarútveginum hafi 42 milljarða í hagnað en greiði einungis 4,8 milljarða í afnot af auðlindinni.

Allir þurfi að njóta auðlindanna, þær eigi ekki að ganga kaupum og sölum eða vera seldar á hrakvirði í samningum við orkufrek stórfyrirtæki sem komi sér hjá skattgreiðslum hér á landi. 

Ný stéttskipting segir Drífa að hafi litið dagsins ljós með vanmati á vinnuframlagi og menntun fólks af erlendum uppruna og skipulegt vanmat ríki um vinnuframlag kvenna.

Látið sé að því liggja að uppbygging launa sé meitluð í stein, „til að mynda að margfaldar greiðslur gangi til þeirra sem sýsla með peninga á meðan þau sem annast fólk eru talin verðskulda minnst.“

Drífa segir að nota beri skatta og auðlindagjöld til að styrkja velferðarkerfið. Þannig eigi að koma málum að fólk þurfi ekki að velta fyrir sér hvort það hafi efni á að viðhalda heilsu sinni.

„Við getum öll notið menntunar og þess að kerfið grípi í raun og veru þau sem detta út af vinnumarkaði. Örorka eða aldur verði ekki ávísun á fátækt,“ segir í ávarpi Drífu Snædal.

Hún segir jafnframt að áríðandi sé að félagsleg hugsun verði í uppbyggingu húsnæðis. Frjálsi markaðurinn geti aldri mætt kröfunum um gott húsnæði fyrir alla.

Drífa segir kórónuveirufaraldurinn hafa afhjúpað veikleika og styrkleika íslensks samfélags, að hann hafi sýnt mikilvægi samtryggingarinnar. „Svarið til framtíðar hlýtur því að vera aukin samtrygging, hvort sem er í veiruvörnum eða öðru. Það er nóg til!“

Í dag verða ekki útifundir og kröfugöngur eða annað sem jafnan hefur fylgt baráttudegi verkalýðsins.

Þetta er í annað sinn í tæp hundrað ár sem íslenskt launafólk safnast ekki saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar, en hátíðahöld voru einnig með breyttu sniði í fyrra vegna faraldursins.

Þess í stað verður skemmti- og baráttusamkomu sjónvarpað í kvöld klukkan níu, þar sem landsþekktir tónlistarmenn og skemmtikraftar koma fram.