Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Brýnt að stytta afgreiðslutíma upplýsinganefndar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bæta þarf starfskilyrði og -aðstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál til að stytta megi afgreiðslutíma mála hjá henni. Þetta er meðal þess sem fram kemur í bréfi Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Bréfið var sömuleiðis sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis til upplýsingar. 

Umboðsmaður vísar í bréfi sínu til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um upplýsingamál en hann hefur um hríð rannsakað afgreiðslutíma mála hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Ef ekki verði gerða breytingar á starfsskilyrðum nefndarinnar hafi hún takmarkaðar leiðir til að bæta verulega úr. Því þurfi meðal annars að fjölga starfsmönnum hennar og jafnvel að sjá til þess að formaður hennar sé í föstu starfi sem hann sinni eingöngu.

Umboðsmaður bendir einnig á að viðhorf almennings og traust til sjálfstæðis nefndarinnar geti litast af því að starfsaðstaða hennar er í forsætisráðuneytinu og að starfsmenn ráðuneytisins aðstoði hana.

Embætti Umboðsmanns hefur borist erindi sem sýni að afgreiðslutími beiðna um aðgang að gögnum sé oft æði langur, jafnvel í tilfellum einfaldra synjana. Þó tókst að stytta hann umtalsvert á síðasta ári í samanburði við fyrri ár en úrskurðum nefndarinnar hefur fjölgað ár hvert.

Það er álit umboðsmanns að rétturinn til aðgangs að upplýsingum geti orðið þýðingarlaus verði verulegar tafir á afgreiðslu en lögbundið viðmið er 150 dagar. Það sé ólíkt þeim áherslum sem eru á Norðurlöndum þar sem almennt sé miðað við fáeina daga.

Umboðsmaður ákvað að láta við sitja að brýna fyrir úrskurðarnefnd upplýsingamála að gera hvað hún getur að kveða upp úrskurði svo fljótt sem verða má frekar en að horfa til 150 daga viðmiðsins. Það sé vegna þess að Alþingi hefur sett viðmið um tímafrest í lög.