Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Brýnt að bjarga minjum á Siglunesi undan ágangi sjávar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vernda þarf órannsakaðar mannvistarleifar á Siglunesi fyrir ágangi sjávar. Það verði gert með því að byggja sjóvarnargarð á nesinu, milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar.

Þetta kemur fram í þingsályktunartillögu þingmanna Miðflokksins sem lögð var fram sem þingskjal í gær. Markmiðið er jafnframt að tryggja að hafnarmannvirki á Siglufirði verði varin fyrir ágangi sjávar.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að á Siglunesi hafi staðið samnefndur bær, sem hafi verið höfuðból, kirkju- og prestsetur, þar til byggð lagðist af árið 1988.

Fornleifarannsóknir á nesinu hafi leitt í ljós mikla fornminjar sem rekja megi til fyrstu alda byggðar í landinu og fram yfir árið 1300, þar á meðal taflmaður líkur svokölluðum Ljóðhústaflmönnum sem fundust vestur af Skotlandi á 19. öld.

Siglunes var, eftir því sem Landnámabók greinir frá, landnámsjörð Þormóðs Ramma og þar megi finna töluverðar verbúðarrústir. Allt fram á 20. öld hafi verið margbýlt þar, jafnvel einn fyrsti vísir að þéttbýlismyndun í landinu, en þangað er aðeins hægt að komast sjóleiðina.

Landleiðin um Siglunesskriður er varasöm og illræmd. Enn, segir í greinargerðinni, megi sjá rústir ratsjárstöðvar bandaríska hersins á Siglunesi. Mikið landbrot hafi orðið til þess að nesið hefur minnkað mjög og landeyðing  orðið í stórviðrum.

Í greinargerð þingmannanna kemur einnig fram að Fjallabyggð leiti nú leiða til að bjarga Siglunesi og hafi skipulags- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins lagt til að sótt verði um framlag til Vegagerðarinnar í samvinnu við landeigendur.

Bæjarstjórinn í Fjallabyggð hafi kannað leiðir til bjargar Siglunesi sem og hagsmunasamtökin Björgum Siglunesi. Því liggi á að hefja framkvæmdir við sjóvarnargarðinn á Siglunesi sem fyrst, að mati flutningsmanna tillögunnar.