Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonandi síðasti efnahagsaðgerðapakkinn

Mynd: RÚV / RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist vona að þær efnahagsaðgerðir sem kynntar voru í morgun séu þær síðustu sem ríkisstjórnin þurfi að grípa til í faraldrinum. Hann segir ríkissjóð geta staðið undir aðgerðunum þó að þær séu dýrar.

Ríkisstjórnin ákvað í morgun að framlengja lokunarstyrki og heimild til að taka úr séreignarsparnað, fjölga þeim sem sótt geta um viðspyrnustyrki auk þess sem þeir sem glímt hafa við langtímaatvinnuleysi fá 100 þúsund króna eingreiðslu eftir mánaðamótin. Þá verður veittur styrkur til endurráðningar í fyrra starfshlutfall og landsmenn eiga von á nýrri ferðagjöf fyrir sumarið.

Jafnframt verður veitt 600 milljóna króna viðbótarframlag til geðheilbrigðismála fyrir börn og ungmenni til að mæta aukinni þörf vegna COVID-19, boðið verður upp á sérstök sumarlán fyrir námsmenn hjá Menntasjóði námsmanna og þá verður þeim boðið upp á viðbótarlán fyrir næsta skólaár.

Einnig stendur til að gefa nýja ferðagjöf og þá verður greiddur sérstakur 30 þúsund króna barnabótaauki með hverju barni við álagningu opinberra gjalda einstaklinga í lok maí til allra þeirra sem fá greiddar tekjutengdar barnabætur.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist vona að þessi aðgerðapakki sé sá síðasti í röðinni, þar sem góður gangur sé í bólusetningum og vonir standa til þess að eðlilegra líf sé handan við hornið. 

„Ég held að þetta sé í seinasta skipti sem við þurfum að koma með aðgerðir sem eru sniðnar að þeim sérstöku aðstæðum sem skapast þegar við þurfum að vera í miklum takmörkunum á samkomum fólks, vonandi er það þannig að við séum að fara að sjá opnara og bjartara samfélag fram undan,“ segir Bjarni.

Hann segir að með aðgerðunum sé verið að lækka þröskuld fyrir fólk og fyrirtæki inn í úrræðin. Ríkissjóður geti staðið undir þeim kostnaði sem þessu fylgir, en Bjarni segist ekki vilja kasta tölu á kostnaðinn.

„Þetta eru margir milljarðar sem munu fara úr ríkissjóði, sérstaklega í vinnumarkaðsúrræðunum en við erum sömuleiðis að útvíkka  stuðningsaðgerðir fyrir fyrirtæki og barnabæturnar kosta sitt, svo í heildina erum við að tala um marga milljarða, en ég segi alltaf varðandi kostnaðinn að þetta er peningum vel varið. Kostnaðurinn við að gera ekkert er hærri,“ segir Bjarni. 

Viðtal Hauks Holm við Bjarna Benediktsson má sjá hér að ofan.