Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þrjú smit í Hrunamannahreppi

30.04.2021 - 08:02
Mynd með færslu
 Mynd: Halldóra Hjörleifsdóttir - RÚV
Þrjú kórónuveirusmit hafa verið staðfest í Hrunamannahreppi. Ekki er kennt í grunnskólanum í dag og á mánudaginn. Leikskólinn er lokaður í dag og sundlaug og íþróttahús eru lokuð í dag og um helgina. 

Í gærkvöld komi í ljós að nemandi í fyrsta bekki Flúðaskóla var með COVID-19 auk tveggja smita sem vitað var um. Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri segir að smitin tengist.  Hann segir að þetta líti þokkalega út sá sem greindist í gærkvöld hafi verið tvo daga í sóttkví og tengist þeim sem fyrr greindust.

Íbúar hvattir til að halda sig heima um helgina

 Margir voru skimaðir í gær og  það sjáist betur þegar líður á daginn hvernig fer. Farið verði yfir frekari viðbrögð á fundi með sóttvarnalækni Suðurlands klukkan átta.  Ákveðið var í gærkvöld að fara í harðari aðgerðir í samráði við smitrakningarteymi Almannavarna. Grunnskólinn er lokaður í dag og á mánudag, en þá er starfsdagur. Leikskólinn er lokaður í dag sem  og sundlaug, íþróttahús og tækjasalur og verður það þannig um helgina Íbúar eru hvattir til að vera heima við um helgina og hitta sem fæsta. Frekari upplýsingar verði sendar til foreldra frá skólunum en þurfi fólk að fara í sóttkví koma upplýsingar frá smitrakningarteymi. Gert er ráð fyrir að starfsemi verði venjubundin að flestu leyti á mánudaginn nema staðan breytist um helgina. 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV