Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rúm 9 tonn af mjólk mynda hvítan læk í Eyjafjarðarsveit

30.04.2021 - 15:39
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / Óðinn Svan Óðinsson
Rúm níu tonn af mjólk sem voru í mjólkurbíl sem valt í Eyjafjarðarsveit í hádeginu fóru til spillis. Engin hálka var á veginum þegar bíllinn valt út af veginum og hafnaði á hvolfi skammt frá bænum Hranastöðum. Gat virðist hafa komið á tank bílsins því mjólk lak úr honum í lækjarfarveg þannig að lækurinn varð hvítur.

Samkvæmt upplýsingum frá Mjólkursamsölunni fóru þannig rúm níu tonn af mjólk til spillis. Þau runnu í læk sem rennur út í Eyjafjarðará sem er mjög vatnsmikil. Hún rennur svo til sjávar. 

Þessi mjólkurmissir hefur engin áhrif á mjólkurframboð á Norðurlandi. Bílstjórinn var einn í bílnum þegar óhappið varð. Hann komst af sjálfsdáðum út úr bílnum ómeiddur.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV