Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Of snemmt að setja út en ekki of seint að sá

30.04.2021 - 08:35
Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Nú er tími til að huga að matjurtagörðum og það er ekki of seint að sá matjurtum og sumarblómum. Enn er þó of snemmt að setja út matjurtir, segir Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur. Þá mælir hann með því að fólk herði plöntur sem sáð hefur verið innandyra.

„Nú er næsta skref að fara að tína sölnuð lauf utan af fjölærum plöntum. Aðeins að hreyfa beðin,“ segir Vilmundur. Rætt var við hann í Morgunútvarpi Rásar 2. Þá sé upplagt að reita arfa sem er farinn að stinga upp kollinum.

„Flestir eru búnir að sá sumarblómunum en það eru nokkrar tegundir sem má sá enn þá. Svo verður fólk að fara að undirbúa matjurtagarðinn. Þar stingur maður upp og ber á lífrænan áburð. Svo þarf að láta kartöflur spíra. Það er best að gera í einföldum kassa í þvottahúsinu í birtu og svolitlum hita. Við viljum ekki að spírurnar séu of langar þegar þær fara niður. Síðan er að klippa og huga að því að skerpa skóflur og klippur,“ segir Vilmundur. 

Er of snemmt að fara að huga að einhverju öðru?

„Það er of snemmt að setja út,“ segir Vilmundur. Um miðjan apríl hefði verið best að sá flestum matjurtum. „Ekki öllum en flestar þurfa að minnsta kosti sex vikur í forræktun innandyra áður en maður setur þær út. Svo eru nokkrar tegundir eins og gulrætur og grænkál sem er hægt að sá beint út.“

Þá sé núna kominn tími til að herða forræktuðu matjurtirnar. „Það er ágætishitastig hérna á Suðurlandi. Ég held að það hafi verið átta gráður í morgun. Þannig að það má bera plönturnar út á daginn og taka þær svo inn þegar það fer að kólna. Þetta er kallað að herða. Þær eru vandar við smátt og smátt að vera úti. Við viljum helst að jarðvegshiti sé kominn í sex, sjö gráður áður en sett er út,“ segir Vilmundur.

Þá hafi Hafsteinn Hafliðason garðyrkjumaður kennt Vilmundi gott ráð. „Þegar hitastig við Scoresby-sund á Grænlandi er komið yfir núll gráður þá er orðið tímabært að setja út hérna.“