Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lög sem hafa alltaf verið til

Mynd með færslu
 Mynd: Haraldur Guðjo´nsson Thors - KK

Lög sem hafa alltaf verið til

30.04.2021 - 09:44

Höfundar

Árin 1985 – 2000 er safnplata á vínyl með þjóðargerseminni KK. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

„Þessi lög hljóma eins og þau hafi alltaf verið til,“ sagði ég við litlu fjölskylduna mína þegar „Vegbúi“ hljómaði undir Lasagna-snæðingi á heimilinu okkar í Stangarholti (þar sem hægt er að kúldrast hjá Knúti og spæla egg). Konan kinkaði kolli, unglingarnir áhugaminni. En þannig eru bestu lög KK nákvæmlega. „Vegbúi“, „Þjóðvegur 66“, „Lucky One“, „I think of Angels“ og „Álfablokkin“. Það er eins og þessi lög hafi verið til uppi í skýjunum frá og með Mikla-Hvelli og Kristján Kristjánsson, KK, hafi einfaldlega tosað þau niður til sín þegar hann hóf að munda gítar og rödd fyrir alvöru. Einföld og eilíf. Með sammannlegum, glúrnum og ægifallegum textum sem allir geta tengt við. Vinsældir KK eiga alls ekki að koma á óvart, því að auk þessa sem ég hef talið upp hefur hann einn áreynslulausasta sjarma sem maður hefur komist í kynni við. Það stafar af honum, bókstaflega.

Þetta safn er bústið og gott og hefði hæglega getað verið helmingi lengra. Slagararnir sem ég nefndi eru allir hér og þetta eru frábær lög, öll sem eitt. Skynsamlega er það flæði síðan brotið upp með óþekktari lögum, „deep cuts“ eins og það heitir á ensku. „Ég vil fá að sjá þig“ af Heimaland og „Í ljósaskiptum“ af Hotel Föroyar svo ég nefni dæmi. Lög sem eru kannski ekki í maraþonspilun á útvarpsstöðvum en firnasmíðar fyrir það og gefa breiðari mynd af söngvaskáldinu en smellirnir gefa til kynna. Einnig er hér ábreiða á „The Breeze“ eftir J.J. Cale sem kom fyrst út á hljómsnældu árið 1985. Var það fyrsta lagið sem KK tók upp í hljóðveri.

Mig langaði til að hafa þessi skrif öðruvísi en venjulega, enda tilefni til. KK er enginn venjulegur maður og það útheimtir svipaða hanteringu hérna megin. Mig langaði til að heiðra hann með frjálsu textaflæði, í stíl við það frjálsa flæði sem einkennir þennan öðling.

Ég tók viðtal við KK fyrir Morgunblaðið fyrir rúmum tíu árum síðan. Í endaðan ágúst, 2010. Ég var tiltölulega nýkominn úr meðferð og svona líka bjartur og brosandi. Var að njóta sólar með hreint sinni í fyrsta sinn í áratugi og sunna skein af öllu afli þennan dag. Viðtalið fór fram á heimili KK í Vogahverfinu og þar sem ég er að rifja það upp sé ég að það var sömuleiðis í frjálsu flæði! Það tók heila eilífð að koma sér að efninu, meirihluti viðtalsins fór í almennt hjal um tónlist. Mikið spjallað um Stevie Wonder, einn af spámönnunum samkvæmt KK. Af einhverjum sökum var ég án fararskjóta (man ekki hvernig ég kom mér í viðtalið, fór líkast til með ljósmyndaranum, Golla vini mínum) og eftir viðtalið skutlaði KK mér alla leið út á Granda, í litlum sendiferðabíl, þar sem hjól þess er skrifar var í viðgerð á hinu dásamlega verkstæði Kríunni. KK notaði tækifærið þar og þá og ræddi við eigandann um hvort það væri ekki hægt að gera upp gamalt Kristjaníuhjól sem hann ætti. Eftir skeggræður og skraf mikið uppgötvaðist svo að blaðamaður væri orðinn alltof seinn á fund. Ekki málið, KK henti nýuppgerða hjólinu upp í bíl og saman brunuðu blaðamaður og söngvari á fundinn mikilvæga. Það var ekkert angur í hjarta þennan góða dag en gatan lá hins vegar greið...

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

KK – árin 1985-2000