Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hyggjast banna mentólsígarettur í Bandaríkjunum

30.04.2021 - 03:43
FILE - This March 28, 2019, file photo shows cigarette butts in an ashtray in New York. Two of the hottest trends in investing are working in tandem to steer billions of dollars toward companies seen as the best corporate citizens. The sustainable investing field in its early days attracted investors by avoiding so-called “sin stocks”-- gun makers, cigarette manufacturers, etc. (AP Photo/Jenny Kane, File)
 Mynd: Associated Press - AP
Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna hyggst banna sölu vindla og sígaretta með mentólbragði. Stofnunin sendi frá sér tilkynningu þessa efnis í gær. Verði bannið að veruleika tekur það til ríflega þriðjungs allra seldra vindlinga í Bandaríkjunum.

Félagasamtök um lýðheilsu og borgaraleg réttindi vestra hafa lengi barist fyrir banni við sölu á bragðbættum tóbaksvörum, sér í lagi mentólsígarettum. Rökin eru meðal annars þau, segir í tilkynningu Matvæla- og lyfjastofnunar, að þær valdi hlutfallslega langmestu heilsutjóni meðal blökkumanna, tekjulægri þjóðfélagshópa og hinseginfólks, sem rannsóknir hafi sýnt að sæki meira í þessa tegund vindlinga en aðrir.

Gagnrýnendur bannsins - aðrir en hagsmunaaðilar í tóbaksiðnaðinum - óttast að það leiði til aukins svartamarkaðsbrasks, sem aftur leiði til fleiri árekstra blökkufólks við lögregluna.

Mánuðir eða ár munu líða áður en bannið tekur gildi

Bannið tekur ekki gildi þegar í stað, heldur má búast við því að mánuðir og jafnvel ár líði áður en það verður að veruleika. Þrátt fyrir að bannið kalli ekki á lagabreytingu heldur einungis reglugerð er langt og strangt ferli framundan. Áður en reglugerðin öðlast gildi þarf að líða ákveðinn tími, svo að hagsmunaaðilar geti nýtt andmælarétt sinn. Búist er við að tóbaksframleiðendur nýti hann til hins ýtrasta, enda miklir hagsmunir í húfi.