Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Framlengir reglugerð varðandi endurgreiðslu kostnaðar

Svandís Svavarsdóttir
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur framlengt um einn mánuð núgildandi reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu þeirra sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

Þannig er frestað upptöku nýrrar reglugerðar um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. 

Í nýju reglugerðinni er gert ráð fyrir ákveðinni hámarksfjárhæð sem sjúkratryggður greiði fyrir þjónustuna á tilteknu tímabili. Það segir ráðherra að sé mikilvægur liður í því að tryggja öllum sem greiðastan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Samningur sérfræðilækna við Sjúkratryggingar Íslands rann út árið 2018, ekki hefur tekist að semja að nýju um kostnaðarþátttökuna en samningaviðræður standa yfir.

Sérgreinalæknar hafa mótmælt því að ráðherra hefur, samkvæmt heimild í lögum, ákveðið gjaldskrá fyrir þátttöku Sjúkratrygginga með því að hún sé of lág.   

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að sjúklingar þurfi nú að greiða tvo reikninga við komu til sérfræðilæknis. Annar þeirra fáist endurgreiddur í samræmi við heildarútgjöld sjúklingsins til heilbrigðisþjónustu en hinn ekki.

Það standi því kerfi fyrir þrifum sem sett hafi verið upp með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi. Því skuli sérfræðilæknar starfa í samræmi við greiðsluþátttökukerfið sem tryggi sjúklingum sanngjarna greiðsluþátttöku.

Stjórn Læknafélags Reykjavíkur telur í umsögn sinn á samráðsgátt stjórnvalda að skilyrði í nýju reglugerðinni geta hindrað að sjúkratryggðir fái lögvarða þjónustu og réttindagreiðslur og að hún hafi ekki lagastoð.

Því er heilbrigðisráðherra hvött til að setja reglugerð um endurgreiðslu til sjúkratryggðra sem styðjist við lög. Félag almennra lækna álítur nýju reglugerðina skerða aðgengi sjúklinga að sérfræðilæknum.

Læknafélag Íslands tekur í sama streng og takmörkunin verði til með banni við komugjöldum, kröfum um skil upplýsinga í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga og því að ætlast sé til að læknar skili endurskoðuðum ársreikningi til Sjúkratrygginga.

Slíkt hafi ekki lagastoð og sjúklingar eigi ekki að þurfa að þola afleiðingar þess. Félögin hvetja til þess að samningar náist sem fyrst og hið sama gerir heilbrigðisráðherra í tilkynningu sinni.