Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bjartsýni ríkir þrátt fyrir samdrátt á fyrsta fjórðungi

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Bjartsýni ríkir í herbúðum Icelandair Group þrátt fyrir að heildartekjur félagsins hafi lækkað um 73% á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt fyrsta ársfjórðungsuppgjöri árs. Tekjurnar námu 7,3 milljörðum króna eða 57,4 milljónum bandaríkjadala. Tap var því 3,9 milljarðar króna en var 30,8 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. 

Verkefni í leiguflugi á vegum Loftleiða Icelandic styrktu tekjurnar auk þess sem meira var flutt af frakt en áður en heimsfaraldurinn skall á. Aukningin í þeim hluta starfseminnar er um 64% og horfurnar sagðar góðar.

Einnig er búist við að samþætting Icelandair Connect við Icelandair verði til þess að auka tekjurnar og gert er ráð fyrir að kostnaður við reksturinn geti lækkað um allt að 381 milljón króna.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að jákvæð teikn séu á lofti um aukin umsvif í innanlandsflugi.

„Þrátt fyrir áframhaldandi neikvæð áhrif faraldursins á starfsemi félagsins á síðustu vikum erum við bjartsýn á að geta aukið flugið jafnt og þétt núna á öðrum ársfjórðungi og bætt svo í framboðið frá þriðja ársfjórðungi þessa árs.“

Tap af reiknaðri afkomu félagsins að teknu tilliti til greiðslu vaxta og skatta, með afskriftum inniföldum (EBIT) var um 5,9 milljarðar króna samanborið við 26,7 milljarða tap á síðasta ári.

Áhrifa COVID-19 gætir ennþá mjög enda dróst sætaframboð félagsins saman um 92% á fyrsta ársfjórðungi á milli ára. Enn er staða bókana veik á öðrum ársfjórðungi, vegna gildandi ferðatakmarkana á mörkuðum félagsins.

Vonir standa þó til að bjartari horfur séu framundan, að flug og framboð ferða aukist og því er álitið að  horfur á fjórða ársfjórðungi séu góðar.

Markaðsherferð í Bandaríkjunum hefur glætt bókanir til Íslands og talið er að tengiflug til Evrópu hefjist þegar ferðatakmörkunum verður aflétt þar í álfu. Þar leiki framvinda bólusetninga beggja vegna Atlantshafsins veigamikið hlutverk.

„Það verða mikil tækifæri fyrir Ísland og íslenska ferðaþjónustu þegar markaðir opna á ný og hefur eldgosið á Reykjanesskaga vakið enn meiri athygli á Íslandi sem áfangastað að undanförnu,“ segir Bogi Nils Bogason.

Hann býst einnig við að Boeing 737 MAX, sem nýverið voru teknar í notkun á ný eftir tveggja ára kyrrsetningu, styrki leiðakerfið enn frekar. Laust fé Icelandair á fyrsta ársfjórðungi er 35,8 milljarðar króna, af því er handbært fé og lausafjársjóðir um 14 milljarðar króna.

Eiginfjárhlutfall félagsins er 23% leiðrétt fyrir tímabundnum áhrifum áskriftarréttinda en var 25% í upphafi árs. Ekki verður gefin út afkomuspá fyrir árið 2021 vegna áframhaldandi óvissu.

Bogi segir félagið þó í góðri stöðu til að glíma við þá tvísýnu og það sé reiðubúið að grípa þau tækifæri sem framundan séu.