Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonast eftir ásættanlegum samningi við Heilsuvernd

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson - RÚV
Nýr starfsmaður sem hefur störf hjá Öldrunarheimilum Akureyrar eftir fyrsta júní fær mun lægri laun en núverandi starfsmenn, ef farið er eftir kjarasamningum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Þar getur munað 50 þúsund krónum á mánuði.

Sjúkratryggingar Íslands sömdu við Heilsuvernd um rekstur Öldrunarheimila Akureyrar og tekur félagið við um næstu mánaðamót af Akureyrarbæ. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, benti á það í viðtali við N4 að lög um aðilaskipti tryggi að núverandi starfsmenn ÖA haldi sínum réttindum á meðan kjarasamningar væru í gildi. Nýir starfsmenn færu á aðra samninga.

Geti munað 40-50 þúsund krónum á byrjunarlaunum 

Meirihluti starfsfólks ÖA er í Einingu-Iðju og Björn Snæbjörnsson, formaður þar, segir að almennt greiði sveitarfélög hærri laun á hjúkrunarheimilum en einkafyrirtæki með samninga við ríkið. „Þeir samningar sem menn hafa sumstaðar verið að koma með, það eru þeir samningar sem gilda á höfuðborgarsvæðinu, og þar getur munað upp í 40-50 þúsund krónum í byrjunarlaunum hjá viðkomandi einstaklingi á milli sveitarfélagasamninga og þeirra samninga sem þar eru í gildi.“

Vonar að það náist samningar sem báðir sætta sig við

Ekki náðist í Teit Guðmundsson, framkvæmdastjóra Heilsuverndar við vinnslu fréttarinnar, en Björn segir auðvitað ekki sjálfgefið að fyrirtækið fari þessa leið. Engar viðræður hafi enn átt sér stað við Heilsuvernd - sem þurfi að gera sérstakan samning fyrir sitt starfsfólk á Akureyri. „Ég hef nú trú á því, og bara treysti því, að þetta fyrirtæki komi í viðræður við okkur og við getum gert þannig samninga að við getum báðir aðilar verið sæmilega sáttir við það.“