Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stórt skref í átt að jafnrétti á vinnumarkaði

29.04.2021 - 10:23
Mynd: BSRB / BSRB
96 prósent vaktavinnufólks í hlutastarfi hjá ríki og sveitarfélögum hafa samþykkt að auka starfshlutfall sitt en vinna áfram jafnmikið. Er það liður í styttingu vinnuvikunnar. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að þetta eigi fyrst og fremst við um konur sem hafi ekki treyst sér til að vera í fullu starfi vegna þess hversu þung störfin eru og þetta sé því stórt skref í jafnréttisátt á vinnumarkaði.

Fyrsti liður í styttingu vinnuviku vaktavinnufólks, sem nær til 9000 starfsmanna á 700 vinnustöðum, hafi verið að fara yfir allt skipulag hjá stofnunum og reyna að finna leiðir til að nýta tímann betur. Næsta skref hafi verið þetta, að fá fólk í hlutastarfi til að hækka starfshlutfallið þótt vinnustundum fjölgaði ekki.

Viðurkenning á kröfu vaktavinnufólks

„Með þessari styttingu þá er auðvitað ákveðin viðurkenning á þeirri kröfu vaktavinnufólks sem hefur verið í gegnum tíðina, og okkur hjá BSRB, um að 100% vaktavinna eigi að jafngilda 80% viðveru,“ segir Sonja.

„Það eru um 96% þeirra sem eru í hlutastarfi sem þáðu það. Það þýðir þá í raun að þau eru að vinna sama vinnumagn og þau gerðu áður og svo er þetta raunverulega þríþrætt: Þau geta aukið við sig á grundvelli styttingar úr 40 í 36, í sumum tilfellum er líka hægt að bjóða þeim upp á sem nemur styttingu úr 40 í 32 og svo sums staðar þá myndast enn frekara mönnunargat og þá er möguleiki á að bjóða fólki upp á enn frekari hækkun. Þetta náttúrulega hefur áhrif á ævitekjur, og eins og ég nefndi þá eru þetta aðallega konur þannig að þetta er stórt skref í átt að auknu jafnrétti á vinnumarkaði,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Sonju í heild í spilaranum hér fyrir ofan.