Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir ásakanirnar „hrærigraut af þvættingi“

Mynd: EPA / EPA
Hrærigrautur af þvættingi eru orðin sem Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands notar um ásakanir á hendur sér. Kosningaeftirlit landsins rannsakar nú hvort hann hafi þegið fjárstyrki til íbúðaframkvæmda.

Interor Resign, sem sagt innanhúshöfnun en ekki innanhússhönnun. 

Boris málaði sig út í horn. 

Já, það var greinilega góður dagur í vinnunni hjá fyrirsagnasmiðum bresku dagblaðanna í gær. Á öllum forsíðunum var umfjöllun um umdeildar endurbætur í Downing-stræti.  En um hvað snýst þetta mál sem gárungar kalla nú Flatgate?

Hvað er Flatgate?

Þau Boris Johnson og unnusta hans Carrie Symonds réðust fyrir nokkru í framkvæmdir í íbúð sinni við Downing-stræti í Lundúnum. 

Það er í sjálfu sér ekki ólöglegt, breska ríkið áætlar um 30 þúsund pund á ári í viðhald á forsætisráðherrahíbýlum. Framkvæmdirnar munu þó hafa kostað umtalsvert meira en það, jafnvel sex til sjö sinnum meira. Sem væri líklega sjálfsagt mál ef Johnson hefði greitt fyrir það sjálfur, en það þykir ekki alveg liggja ljóst fyrir.

Hart var tekist á um málið í fyrirspurnartíma á breska þinginu í gær eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Fyrrum ráðgjafinn sagði frá

Það var Dominic nokkur Cummings sem upplýsti um málið fyrst. Hann var einn helsti ráðgjafi Johnsons lengi vel og rataði sjálfur í fréttir í fyrra þegar hann þótti gera víðreist um landið þegar fólk var beðið um að vera heima. 

Hollusta ráðgjafans fyrrverandi við forsætisráðherrann virðist eitthvað hafa dvínað. Á bloggsíðu sinni sagði Cummings nýlega að Johnson hefði fengið utanaðkomandi styrktaraðila til að fjármagna framkvæmdirnar, upplýsingar sem kosningaeftirlit Bretlands er nú að kanna hvort fótur sé fyrir. 

Rannsókn kosningaeftirlitsins snýr meðal annars að því að komast að því hvort það hafi verið hann eða einhver annar sem greiddi reikningana í upphafi. Við því fást ekki eins skýr svör. 

Heitir stuðningi við rannsóknina

Sjálfur hefur forsætisráðherrann kallað málið „farrago of nonsense“ eða hrærigraut af þvættingi. En hann fagnar rannsókninni og heitir samvinnu við kosningaeftirlitið.

Fréttaskýrendur hafa rýnt gaumgæfilega í það hvernig Johnson svarar spurningunum. Hann segir að hann sé búinn að greiða fyrir allar framvkæmdirnar, en segir aldrei beint út að það hafi verið hann sem greiddi fyrir þetta í upphafi. Svo einhver halda því fram að hann hafi rokið til og greitt fyrir framkvæmdirnar þegar upp um þetta komst. 

Á þetta eftir að hafa einhver áhrif á Johnson og stöðu hans?

Það getur gert það. Það fer auðvitað eftir því að hverju kosningaeftirlit Bretlands, þessi sjálfstæða stofnun, kemst að. Ef niðurstaða rannsóknar þeirra verður að einhverjir aðrir en Johnson hafi borgað fyrir þessar framkvæmdir á sínum tíma þá gæti hann verið í vandræðum.  

Annars vegar vegna þess að þjóðkjörnum stjórnmálamönnum í Bretlandi ber að upplýsa um öll vegleg fjárframlög innan 28 daga. 

Og hins vegar, ef ásakanirnar reynast sannar, þá hefur hann sagt þinginu ósatt. Og samkvæmt siðareglum breskra ráðherra þurfa þeir að segja af sér ef þeir verða uppvísir að þvi að hafa logið að þinginu. 

Umfjöllun um málið í sjónvarpsfréttum kvöldsins má sjá í spilaranum hér að ofan.