Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

SA hefur áhyggjur af aukinni verðbólgu

29.04.2021 - 17:00
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að vaxandi verðbólga sé verulegt áhyggjuefni. Ljóst sé að Seðlabankinn bregðist við ef þessi þróun heldur áfram. Vaxtahækkun myndi hafa bein áhrif á heimilin. Ríflega helmingur íbúðalána sé nú með óverðtryggða vexti.

Grípur Seðlabankinn til aðgerða?

Verðbólgan virðist hafa náð flugi. Frá því í júní í fyrra hefur hún verið yfir verðbólguviðmiði Seðlabankans sem er tveggja komma fimm prósenta verðbólga. Þanmörkin eru nú upp að 4 prósentum og  síðustu fjóra mánuði hefur verðbólgan verið yfir fjórum prósentum. Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir að þessi þróun sé verulegt áhyggjuefni.

„Já, við höfum áhyggjur af þessari þróun. Við höfum séð að verðbólgan hefur verið að aukast á undanförnum mánuðum og nú er hún talsvert yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Við erum hins vegar enn að upplifa efnahagsslaka. Það er samdráttur að mælast í hagkerfi okkar og atvinnuleysi er mjög hátt. Svo er ríkissjóður jafnframt rekinn með miklum halla. Þannig að það væri mjög slæmt ef við förum að missa verðstöðugleikann frá okkur. Við megum ekki gleyma því að eitt meginhlutverk Seðlabankans er að viðhalda hér verðbólgu innan markmiðs. Ef að þetta er þróunin þá getum við ekki annað séð en að Seðlabankinn muni fljótlega þurfa að grípa til einhvers konar aðgerða,“ segir Ásdís.

Vaxtahækkun myndi bitna á heimilunum

Það á eftir að koma í ljós hvort Seðlabankinn bregst við þessari þróun. Næsta vaxtaákvörðun bankans verður 19. maí. En hvernig finnst Ásdísi að bankinn eigi að bregðast við - á hann að hækka vexti? Ásdís segir að Seðlabankinn hafi tvenns konar stjórntæki, vaxtatæki og þjóðhagsvarúðartæki. Hún bendir á að verðbólguna nú megi fyrst og fremst reka til húsnæðismarkaðarins.

„Bankinn getur vissulega gripið til vaxtahækkana en hann getur jafnframt kannski beitt magnbundnum þáttum eins og til dæmis að breyta veðsetningarhlutfallinu. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að við erum kannski á þeim stað í hagsveiflunni að við erum fljótlega að fara að upplifa efnahagsbata en þessi bati verður mjög brothættur. Að okkar mati væri það alls ekki ákjósanleg staða ef Seðlabankinn myndi þurfa að grípa til til dæmis vaxtahækkana. Því það mun ekki aðeins hafa áhrif á fyrirtæki sem eru mörg hver í viðkvæmri stöðu eins og sakir standa heldur jafnframt mikil áhrif á heimilin. Sem dæmi er ríflega helmingur af íbúðalánum heimila nú með óverðtryggða vexti. Þannig að vaxtahækkanir Seðlabankans munu bíta mjög fast á heimilin, hafa bein áhrif á greiðslubyrði heimila.“

Launahækkanir gætu haft áhrif á verðbólguna

Ásdís bendir líka á að launaþróunin geti haft áhrif á verðbólguna ef horft er til næstu missera.

„Við erum að sjá það að laun hér á Íslandi hafa verið að hækka um 11% milli ára á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Enn sem komið erum við fyrst og fremst að sjá að húsnæðismarkaðurinn er að hafa áhrif á verðbólutölurnar. Hins vegar vitum við það að staðan í dag er mjög viðkvæm til dæmis þegar við horfum til fyrirtækja. Launakostnaður þeirra er að hækka mjög mikið. Fyrirtæki geta gripið til tvenns konar aðgerða. Annaðhvort hagrætt í sínum rekstri eða hækkað verðlag og nú þegar erum við að sjá að atvinnuleysi er 11%. Þannig að við óttumst það að ef laun eru að hækka umfram verðmætasköpun þá muni þessar launahækkanir með einum eða öðrum hætti brjótast fram í aukinni verðbólgu,“ segir Ásdís.

Launahækkanir eru í beinu sambandi við umsamin laun. Ásdís segir að Samtök atvinnulífsins hafi varað við því í haust að þessar launahækkanir gætu ógnað efnahagslegum stöðugleika og efnahagslegum bata. Laun á almenna markaðinum hafi hækkað um 8,4% og á opinbera launamarkaðinum um 14 og allt upp í 19%.

Húsnæðiskostnaður hækkar

Hækkun íbúðaverðs hefur mestu áhrifin á aukna verðbólgu. Húsnæðiskostnaður hækkar um 2,5% sem veldur 0,4% hækkun neysluvísitölunnar. Næst kemur hækkun á mat og drykkjarvörum um 1,1%. Á 12 mánuðum hefur matarkarfan hækkað um 5,8%. Verð á húsnæði hefur síðustu 12 mánuði hækkað um 10,6%; sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 16,2% og í fjölbýli um tæp 10%. Fasteignir utan höfuðborgarsvæðisins hafa hækkað um tæp 8%.