Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mistur rakið til meginlands Evrópu en loftgæði í lagi

29.04.2021 - 21:40
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Sigurðsson - RÚV
Gráleitt mistur hefur legið yfir höfuðborgarsvæðinu í dag og síðustu daga. „Þetta er eitthvað bland í poka,“ segir Óli Þór Árnason veðurfræðingur. „Þetta loft virðist bæði hafa komið frá Kanada og Miðvestur-Evrópu. Maður veit ekkert alveg af hverju. Nokkuð víða er sina brennd og afgangsgróður á vorin. Og svo á meðan við vorum með hæga suðvestanátt var þetta sennilega líka gasmengun frá gosinu,“ segir hann.

Loftgæði í lagi

Hann segir að þrátt fyrir mistrið séu loftgæðin í lagi. „Klukkan fjögur og fimm í dag voru gildin sæmilega há í Hvalfirði, það skýrist nú sennilega af gosinu. Mælarnir hérna í Reykjavík eru allir þokkalega góðir. Þetta er greinilega mjög fínlegt mistur sem liggur yfir og við erum a losna við þetta, hann er að ganga í norðanátt og þá hreinsast þetta út í höf og við sjáum þetta aldrei aftur,“ segir Óli Þór.

Reykjarmökkur frá Rússlandi og Úkraínu

Um síðustu helgi var mistur á höfuðborgarsvæðinu rakið til elda í Úkraínu og Rússlandi. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur skrifaði í Facebook-færslu á laugardaginn að það mætti sjá með því að elta mistrið viku aftur í tímann:

„Þar eru á vorin kveiktir þúsundir elda á svipuðum tíma þegar brennt er moð undan skepnum og gróðurleifar fyrir sáningu á ökrum bænda.  Af þessu verður mikill reykjamökkur sem greinilegur er m.a. með fjarkönnun.
Trúlega eru þetta sýnilegar leifar af þeim reyk sem hingað er kominn eftir krókaleiðum og nú síðast með niðurstreymi í háþrýstisvæðinu austan við landið,“ skrifaði hann á Facebook. 
 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV