Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Listaverkið endaði í gini gígsins

Breskur listamaður reynir að vinna hylli japansks auðkýfings í von um að fá með honum far út í geim. Til að vekja athygli á sér kom listamaðurinn til Íslands og framkvæmdi listrænan gjörning í Geldingadölum.

Max-Denison Pender hafði verið valinn til að mála keppendur Bretlands á Ólympíuleikunum í Tókýó en fjöldatakmarkanir vegna kórónuveirunnar komu í veg fyrir það. Þess í stað hélt hann til Íslands og undanfarnar vikur hefur hann málað íslenskt landslag.

Að sjálfsögðu vakti eldgosið í Geldingadölum athygli hans. Hann hélt þangað upp eitt kvöldið og málaði þar sjálfsmynd við afar krefjandi aðstæður. „Það var hvasst og gasið streymdi um og það var heitt og það var nótt og allt glóði; það var geggjað. Stormurinn hristi trönurnar. Ég þurfti að vera snöggur og koma verkinu frá.“

Þurfti að fórna listaverkinu

Múndering listamannsins er harla óvenjuleg en hann klæddist forláta geimbúningi. Hann er til þess fallinn að vekja athygli japansks auðkýfings, Yusaku Maezawa að nafni. Sá hefur unnið sér það til frægðar að ætla út í geim og umhverfis tunglið eftir tvö ár og hefur lýst eftir átta einstaklingum til að fylgja sér þangað. Max vill slást í þann hóp og verða fyrsti listamaðurinn til að fara út í geim. En af hverju að eyðileggja svona listaverk?

Ekki er hægt að segja annað en að málverkið hafi tekist vel, ekki síst í ljósi þeirra aðstæðna sem það var málað við. En gjörningnum var þar með ekki lokið. Hið endanlega markmið listamannsins var að fljúga málverkinu ofan í einn gíginn við Geldingadali. En hvers vegna að skemma listaverkið? „Ég vil rústa því út af NFT, sem er nýmæli. Maður umbreytir málverkinu í kóða og aðeins er hægt að eiga kóðan sem Bitcoin...þetta er Bitcoin dæmi svo að það verður að eyðileggja efnislega verkið. Og geri ég það verður það aðeins einu sinn og ég geri það rétt, kem því fyrir í gini eldfjallsins.“

Veit að ég er fær um geggjaða hluti

Eftir að skilaboðin til japanska auðkýfingsins voru komin á málverkið var ekkert annað eftir en að fljúga málverkinu ofan í gíginn. „Ég er alsæll með árangurinn. Við eyddum málverkinu. Hvers meira getur maður krafist?“  En hvert er lokatakmarkið hjá listamanninum? „Hið endanlega takmark er að vekja athygli Maezawa. Mig langar út í geim, hringinn í kringum tunglið. Og mála í geimnum. Hann veit að ég ræð við geggjaða hluti; að mála myndverk við gjósandi eldfjall.“

Magnús Geir Eyjólfsson