Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Herflutningar NATO frá Afganistan hafnir

29.04.2021 - 16:57
epa09161388 Afghan security officials inspect the scene of a bomb blast that targeted a vehicle of Afghan National Army, in Jalalabad, Afghanistan, 26 April 2021. At least three Afghan soldiers and four civilians were injured in the incident. General Scott Miller the commander of the US forces in Afghanistan on 25 April, warned of a tragedy if the Taliban returns to violence instead of sticking to the ongoing peace process. Miller's comments came days before the start of the process of withdrawing forces of the US-led coalition from Afghanistan on 01 May, after almost two decades of war.  EPA-EFE/GHULAMULLAH HABIBI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
NATO er byrjað að kalla herlið frá Afganistan. Embættismaður þar segir að ef Talibanar geri árásir meðan á flutningunum stendur verði þeim svarað af fullri hörku.

 

NATO ákvað fyrr í þessum mánuði að kalla herlið sitt til baka í skrefum. Það var gert eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti að bandarískir hermenn yrðu kallaðir á brott fyrir 11. september, sem var seinkun frá ákvörðun fyrri stjórnvalda sem ætluðu að ljúka brottflutningnum 1. maí.

AFP-fréttastofan hefur eftir ónafngreindum embættismanni hjá NATO að ákveðið hafi verið um miðjan apríl að byrja á þeim sveitum sem hafa það hlutverk að þjálfa og styðja afganska hermenn. Þeim brottflutningi verði lokið 1. maí. Alls eru 9.600 hermenn í Afganistan á vegum NATO.

Ákvörðunin hefur ekki mælst vel fyrir á öllum vígstöðvum og hafa aðal áhyggjurnar snúist um að þetta geri Talibönum kleift að ná völdum í landinu á ný, með tilheyrandi ógnarstjórn. Sami embættismaður hjá NATO sagði hins vegar að allt yrði gert til að tryggja öryggi hermannanna. Ef Talibanar gerðu árás meðan á brottflutningnum stæði yrði því svarað af fullri hörku.

NATO hyggst ljúka brottflutningi hermanna sinna á nokkrum mánuðum en nákvæmari tímasetningar liggja þó ekki fyrir. Þjóðverjar, sem eru með 1.300 hermenn í Afganistan nú, hafa þó sagt að þeir stefni að því að þeir verði allir farnir í júlí. NATO hefur verið með hermenn í Afganistan í tæp 20 ár.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV