Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Heimsglugginn: Boris Johnson í vandræðum

29.04.2021 - 10:43
Mynd: EPA-EFE / UK PARLIAMENT
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er í verulegum vandræðum vegna efasemda um hver borgaði fyrir endurnýjun á íbúð hans í Downing-stræti og vegna meintra ummæla í haust um að honum væri sama þó líkin hrönnuðust upp, hann myndi ekki loka Bretlandi aftur.

Vildi ekki grípa til aðgerða gegn nýrri COVID-19 bylgju

Þegar Johnson sagði þetta vildu vísindamenn grípa aftur til víðtækra lokana vegna þess að þeir töldu að annar COVID-19 faraldur væri yfirvofandi. Stjórnin greip svo til aðgerða í nóvember en gagnrýnendur Johnsons segja að töfin á því að skellt væri aftur í lás hafi kostað þúsundir mannslífa. Johnson harðneitar að hafa sagt þetta. Hann neitar einnig að svara spurningunni um hver hafi upphaflega greitt reikninginn fyrir breytingar á íbúðinni í Downing-stræti.

Grunur um brot á reglum

Samkvæmt breskum reglum má aðeins verja ákveðinni upphæð til slíkra breytinga og upphæðin sem Johnson og sambýliskona hans, Carrie Symonds, eyddu í íbúðina er langt umfram það. Johnson segir núna að hann hafi greitt umframkostnaðinn, um 10 milljónir króna, en víkur sér undan því að svara hvenær það var.

Dominic Cummings snýst gegn Johnson

Málið kom upp þegar Dominic Cummings, fyrrverandi ráðgjafi Johnsons, svaraði fyrir sig á föstudaginn og neitaði ásökunum sem Johnson setti fram í samtölum við ritstjóra breskra blaða um að Cummings hefði lekið því að til stæði að grípa til lokana. Cummings lét ekki við það sitja að neita að hafa lekið fréttum um yfirvofandi lokanir heldur varpaði fram þeirri sprengju að Johnson hefði ætlað að nota gjafafé til Íhaldsflokksins til að greiða fyrir kostnaðarsamar breytingar á íbúðinni.

Siðlaust, heimskulegt, mögulega ólöglegt og brot á reglum

Cummings sagði að þetta væri siðlaust, heimskulegt, mögulega ólöglegt og nær örugglega brot á reglum um að gera yrði framlög opinber. Síðan hefur fátt annað komist að í breskum blöðum þó að helstu stuðningsblöðin hafi reynt að hafa annað á forsíðum.

Kosningaeftirlitið rannsakar

Til að bæta gráu ofan á svart tilkynnti svo kosningaeftirlit Bretlands, Electoral Commisison, í gær að það ætlaði að rannsaka málið, það væri rökstuddur grunur um að brot hefði verið framið. Fyrirspurnatíma forsætisráðherra í þinginu í gær var því beðið með nokkurri eftirvæntingu og Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins og fyrrverandi ríkissaksóknari, hjólaði í Johnson og spurði hver hefði upprunalega greitt fyrir íbúðina og lagði áherslu á að það skipti öllu máli.

Johnson segist sjálfur hafa borgað umframkostnað

Johnson sagði að Starmer ætti að vita að hann hefði sjálfur greitt fyrir breytingarnar. Forsætisráðherra bætti svo við að frekari yfirlýsingar yrðu í samráði við nýjan siðameistara ríkisstjórnarinnar sem skipaður var í gærmorgun. Sá fyrri sagði af sér eftir að Johnson hafði að engu úrskurð hans um að innanríkisráðherrann Priti Patel hefði gerst brotleg við siðareglur ráðherra. Samkvæmt því hefði hún átt að víkja en Johnson vildi ekki missa hana og sagði að hann væri ósammála og hún fengi að sitja áfram. 

Keir Starmer heggur í sama knérunn

Hver greiddi upprunalega reikninginn? spurði Starmer aftur. Voru það skattgreiðendur, Íhaldsflokkurinn, einhver sem gaf fé til verksins eða forsætisráðherra? 

,,Ég geri þetta auðvelt fyrir forsætisráðherra og legg fyrir hann krossapróf, það eru bara fjórir kostir svo ég spyr aftur, hver greiddi upphaflega reikninginn?"

Johnson ítrekaði að hann hefði greitt reikninginn, flestu fólki þætti umræðan mjög sérkennileg og kosningaeftirlitið væri að kanna málið en hann gæti fullvissað Starmer um að hann hefði fylgt öllum siðareglum um ráðherra. En hann vék sér enn undan því að svara hver hefði upphaflega greitt fyrir verkið.

Starmer minnir á siðareglur ráðherra

Keir Starmer minnti forsætisráðherra á að samkvæmt siðareglum ráðherra yrðu þeir sem væru staðnir að því að segja þinginu ekki sannleikann að segja af sér. Þetta var raunar aðeins fyrr í umræðunum.

Víkja sér ítrekað undan svörum

Bæði Johnson og fulltrúar Íhaldsflokksins víkja sér ítrekað undan því að svara spurningunni um hver greiddi reikninginn upphaflega og segja hver á fætur öðrum að Johnson hafi greitt fyrir breytingar á íbúðinni og bæta svo við að fólk hafi engan áhuga á viðgerðum á íbúð forsætisráðherra, það vilji tala um frábæran árangur stjórnarinnar við bólusetningu. Sérkennilegt er að fáir tala um að kórónuveiran hefur leikið fáar þjóðir verr en Breta, þar sem fleiri hafa dáið en í nokkru öðru landi í Evrópu.

Johnson reiður í fyrirspurnatímanum

Breskir miðlar segja að Boris Johnson hafi verið mjög reiður eftir aðgangsharðar spurningar Keirs Starmer. Laura Kuenssberg, pólitískur ritstjóri BBC, segir að komið hafi í ljós í fyrirspurnatímanum að Boris Johnson vilji ekki svara því hver greiddi fyrir breytingarnar á íbúðinni i Downing-stræti. Kuenssberg bætti við að það skipti máli hvort stjórnmálamenn ættu einhverjum skuld að gjalda, þess vegna væri málið mikilvægt. Haft er eftir Kuenssberg að hún hafi aldrei séð Johnson jafn reiðan og í gær.

Fáir leggja trúnað á skýringar Johnsons

Fréttaskýrendur segja auðvitað ljóst að einhver annar en Johnson hafi greitt fyrir nýju húsgögnin, veggfóðrið og teppin og að hann hafi greitt þegar ljóst varð að málið var að springa í andlitið á honum. Daily Mail, sem venjulega styður Íhaldsflokkinn eindregið, segir á forsíðu að Johnson hafi málað sig út í horn í málinu. 

Kevin McGuire, aðstoðarritstjóri Daily Mirror líkti athæfi Johnsons við mann sem hefði stolið vínflösku í búð, verið nappaður við dyrnar og þá lofað að borga.

Margir Íhaldsmenn gramir

Það er vitað að margir Íhaldsmenn eru afar gramir yfir þessu máli og sjálfsmarki Johnsons með því að hjóla í Dominic Cummings, en stjórnmálaskýrendur telja ólíklegt að málið hafi alvarlegar afleiðingar fyrir forsætisráðherra, nema eitthvað annað og verra komi í ljós. Cummings hefur ýjað að því að hann lumi á miklu fleiri sprengjum og gæti sprengt þær þegar hann kemur fyrir þingnefnd í maí til að ræða viðbrögð stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum. En eins og staðan er nú metur Robert Colvile, forstjóri Centre for Policy Studies, sem er hægrisinnuð hugveita, það svo að ólíklegt sé að málið leiði til þess að Íhaldsflokkurinn losi sig við Johnson.   

Johnson á mikið inni hjá Íhaldsflokknum

Íhaldsflokkurinn valdi ekki Boris Johnson af því að hann var talinn besti leiðtogi Bretlands, sagði Colevile. Flokkurinn hafi verið í miklum leiðtogavandræðum og þurft á einhverjum að halda sem gæti unnið kosningar, klárað Brexit og sigrað Jeremy Corbyn. Allt þetta gerði Johnson, segir Colevile, og það gefi honum mikið svigrúm. 

Sir Max Hastings segir Johnson algerlega óhæfan

Sagnfræðingurinn og blaðamaðurinn Max Hastings, sem hefur þekkt Boris Johnson í 40 ár, hefur sagt að hann sé óhæfur með öllu. Hastings hefur verið ritstjóri bæði Evening Standard og Daily Telegraph þegar Johnson var fréttaritari í Brussel og skáldaði upp fréttir sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum. Hann hefur einnig sagt að eina fólkið sem telji að Johnson sé góður gæi, nice guy, þekki hann ekki. Hastings vandaði Johnson eða raunar almenningi ekki kveðjurnar í viðtali við BBC.

„Þjóðin veit að hann er hraðlyginn“

„Boris Johnson hefur endurskrifað reglurnar og við virðumst láta okkur í léttu rúmi liggja hvort leiðtogi þjóðarinnar sé siðavandur góður maður og segi sannleikann, þjóðin veit að hann er hraðlyginn, hún veit að það má ekki spyrja hann hversu mörg börn hann eigi, stjórnmálin snúast bara um bólusetningar,“ sagði Hastings í viðtali við The World at One á BBC. Hastings sagðist margoft hafa heyrt fólk segja á síðustu mánuðum að það viti hvern mann Boris hafi að geyma en hann hafi staðið sig stórkostlega við bólusetningar.