Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Önnur bylgja faraldursins á Indlandi stjórnlaus

28.04.2021 - 20:00
Municipal workers prepare to bury the body of a person who died of COVID-19 in Gauhati, India, Sunday, April 25, 2021. India’s crematoriums and burial grounds are being overwhelmed by the devastating new surge of infections tearing through the populous country with terrifying speed, depleting the supply of life-saving oxygen to critical levels and leaving patients to die while waiting in line to see doctors. (AP Photo/Anupam Nath)
 Mynd: AP
Hjálpargögn eru farin að berast til Indlands, þar sem flest kórónuveirusmit í heiminum greinast nú dag hvern. Þriðjungur þeirra sem fara í sýnatöku í Nýju-Delí reynast smituð.

Fyrstu sendingar af hjálpargögnum eru byrjaðar að berast til Indlands. Öndunarvélar og önnur bjargræði gegn kórónuveirunni voru meðal þess sem mátti finna í farmi sem kom frá Bretlandi í gær. 

Enda er víst ekki vanþörf á. Eins og greint hefur verið frá hefur önnur bylgja faraldursins farið sem eldur í sinu um Indland. 

Fyrsta bylgja faraldursins á Indlandi er skilgreind milli júní og september í fyrra, svona um það bil. Önnur bylgjan er talin hafa byrjað í febrúar og fór af stað með svipuðum hætti og sú fyrri, allavega fyrsta mánuðinn eða svo. En í mars og apríl hafa smittölur rokið upp úr öllu valdi og ekkert lát virðist vera á.

10% landsmanna hafa fengið bólusetningu

Á Indlandi búa 1,4 milljarðar. Þrátt fyrir að tvær tegundir af bóluefni séu framleiddar á Indlandi hafa einungis tíu prósent landsmanna fengið einn skammt af bóluefni

Þriðjungur þeirra sem koma í sýnatöku í Nýju-Delí þessa dagana greinist smitaður. Hlutfallið var um þrjú prósent fyrir mánuði. 

Undanfarið hafa greinst rúmlega 300 þúsund smit daglega á Indlandi, tala sem fer hækkandi dag frá degi. Sóttvarnafræðingar óttast að smitum kunni að fjölga upp í um hálfa milljón daglega og ef fram haldi sem horfi gæti farsóttin dregið allt að milljón Indverja til dauða undir lok sumars. Nú hafa um 200 þúsund látist þar í landi. 

Pláss skortir sárlega á útfararstofum víða um landið. Ættingjar þurfa sumir að bíða allt að sólarhring eftir að röðin komi að þeirra látna ástvini. Bálfarir eru nú framkvæmdar á opnum svæðum því pláss á útfararstofum er uppurið.