Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gera sauðburðarhlé á viðræðum um mögulega sameiningu

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Í sumar á að liggja fyrir hvort hafnar verða formlegar viðræður um sameinginu Svalbarðshrepps og Langanesbyggðar. Formaður undirbúningsnefndar segir margt skýrast á allra næstu vikum.

Það var að frumkvæði Svalbarðshrepps sem þessi tvö nágrannasveitarfélög fóru í vetur að ræða um mögulega sameiningu. Síðan þá hafa óformlegar þreifingar átt sér stað og nú hefur verið kosin undirbúningsnefnd sem á að móta þessa vinnu næstu vikurnar.

Byrja á að ráða ráðgjafa til samstarfs

„Núna erum við að skoða það að ráða ráðgjafa til þess að starfa með okkur og byrja á því að skoða sérstaklega fjárhagsleg áhrif af sameiningu. Og gera tímalínu um vinnuna og hvernig við vinnum þetta áfram,“ segir Mirjam Blekkenhorst, formaður nefndarinnar.

Margt að skoða áður en ákveðið hvort hefja eigi formlegar viðræður

Svalbarðshreppur og Langanesbyggð starfa saman að öllum helstu verkefnum og hafa gert lengi. Allt grunnskóla- og leikskólastarf er sameiginlegt, þar er samstarf um slökkvilið og björgunarsveit svo eitthvað sé nefnt. Að mörgu leyti er þetta því orðið eitt og sama samfélagið. Engu að síður segir Mirjam að margt þurfi að skoða áður en hægt verði að ákveða hvort hefja eigi formlegar viðræður um sameiningu. Þá standi til að halda kynningarfund fyrir íbúa í Langanesbyggð, en slíkur fundur hafi þegar verið haldinn í Svalbarðshreppi.

Fundur í næstu viku en svo hlé vegna sauðburðar

Miriam segir að undirbúningsnefndin haldi fund í næstu viku en svo þurfi að gera hlé vegna sauðburðar hjá bændum. 
„Er eitthvað farið að tala um það hvenær þið getið ákveðið hvort þetta verða formlegar viðræður eða ekki?“
„Við stefnum að því að seinnihlutann í sumar gerum við tekið ákvörðun um það. Þannig að við séum klár á því fyrir haustið.“