„Fundinum var frestað – þú ert formaður“

Mynd: Þórdís Claessen / Aðsend

„Fundinum var frestað – þú ert formaður“

28.04.2021 - 12:46

Höfundar

Helgi Eiríkur Eyjólfsson hafði ekki einu sinni boðið sig fram til formanns húsfélagsins í húsinu sem hann var nýfluttur í, þegar honum var tilkynnt að hann hefði verið kjörinn. Hann segir að þeir sem sækjast sérstaklega eftir að fá að gegna embættinu sé ekki endilega manneskjurnar sem séu best til þess fallnar að sinna því.

Við tölum kannski ekki mikið um húsfélög að fyrra bragði en umræður um þau dúkka gjarnan upp á kaffistofum, í matvöruverslunum, vinahittingum og heitum pottum. Við eigum svo mörg þessa reynslu sameiginlega. Fundir með húsfélagi eru ekki endilega okkar stærstu stundir og félögin eru ekki öll skemmtileg en einhvers staðar baka til lúrir alltaf húsfélagið í huga þeirra sem slíku tilheyra.

Var ekki einu sinni fluttur inn

Helgi Eiríkur Eyjólfsson félagsfræðingur hafði nýverið keypt sína fyrstu íbúð þegar hann var settur í embætti formanns húsfélagsins í stóru húsi í Laugardal í Reykjavík. Ákvörðunin var tekin með atkvæðagreiðslu sem Helgi var sjálfur ekki viðstaddur. Þórdís Claessen og Jón Torfi Arason ræddu við Helga um þetta mikilvæga embætti í Lestinni á Rás 1. „Ég var ekki einu sinni fluttur inn, ég var enn að snurfusa til íbúðina þegar það var haldinn hér fundur,“ rifjar Helgi upp um fyrstu kynni sín af húsfélaginu.

Ágreiningur á fundi

Helga hafði verið boðið í gleðskap sama kvöld svo hann sendi föður sinn á fundinn í sinn stað með umboð. Hann var meðvitaður um að það ætti að tilnefna í stjórn á fundinum en vissi lítið meira, fékk þær fregnir að gengið hefði á ýmsu og einhverjir hefðu yfirgefið fundinn í fússi. Hann vissi lítið meira þegar hann fékk skilaboð frá föður sínum: „Fundinum var frestað. Þú ert formaður.“

Um ágreininginn á fundinum segir Helgi: „Það fór nú þannig að það var einhver ósáttur við eitt og annað og að sú stjórn sem þarna er kosin er allt nýtt fólk sem hafði aldrei setið í húsfélagi áður.“ En frá því að þessi fundur var haldinn hefur Helgi gegnt embættinu sem hann óskaði aldrei eftir.

Þurfa að halda fund samkvæmt lögum en mega ekki koma saman

Síðasta árið hefur verið erfitt fyrir stór húsfélög og jafnvel þau minni því vegna samkomutakmarkana hefur verið ómögulegt að hittast. Ekki hefur til dæmis enn tekist að halda aðalfund árið 2021 en lög mæla á um að hann skuli haldinn í síðasta lagi 20. apríl. „Nú eru tuttugu manna samkomutakmarkanir og þetta setur stjórnina í svolítið þrönga stöðu.“ Lengi hefur stjórnin beðið eftir tækifæri til að halda fundinn en það hefur ekki tekist.

Rafrænir fundir samræmast ekki lögum

„Félagsmálaráðuneytið gaf út að það væri hægt að fresta aðalfundi en það voru ekki gefin tímamörk á því,“ segir Helgi. Brátt eigi hann því líklega eftir að gegna embættinu í gömlu umboði. Hann segir að rafrænir fundir, sem eru í meirihluta þeirra funda sem haldnir hafa verið síðasta árið, samræmist ekki lögum um fjöleignahús. „Þetta er bara mikil réttaróvissa sem við lifum í hérna, þetta er ekkert grín,“ segir Helgi.

Ekki embætti sem fólk sækist eftir

Að verða formaður húsfélags var enginn draumur hjá Helga, síst í hans fyrstu eign. Það gæti hins vegar mögulega gert hann hæfari í embættið. „Þetta er ekki embætti sem fólk sækist eftir alla jafna,“ segir Helgi glettinn. „Ef fólk hefur sérstakan metnað fyrir að vera formaður húsfélags er ekki endilega víst að sá hinn sami sé best til þess fallinn að vera það. En þetta er lýjandi starf, lýjandi embætti og ekki eitthvað sem maður getur verið lengi.“

Fjallað var um húsfélög í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Íslenskar konur keyptu yfir 200 þúsund Hagkaupssloppa