Mynd: RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.
Áfram fjölgar smitum í Þorlákshöfn
28.04.2021 - 22:12
Að minnsta kosti eitt kórónuveirusmit hefur greinst til viðbótar í Þorlákshöfn. Þar voru 200 skimaðir í dag eftir að grunskólanemandi í bænum greindist með COVID-19. Enn hefur ekki verið lokið við að greina öll sýnin. Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segist telja að smitið tengist hópsýkingunni í útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækinu Ramma. Staðfest smit í bæjarfélaginu eru nú 14 og Elliði telur að þau tengist öll sömu hópsýkingunni.
„Við viljum gíra samskiptin alveg niður til þess að það verði ekki sprenging í smitum,“ segir Elliði í samtali við fréttastofu. Grunnskólinn er lokaður, starfsemi leikskólans er í lágmarki, bókasafnið er lokað og íþróttaæfingar barna liggja niðri.
Leikskólinn í Þorlákshöfn er opinn og segir Elliði að það sé meðal annars gert til þess að fólk í framlínustörfum geti mætt í vinnuna. Foreldrar eru hins vegar hvattir til að halda börnum sínum heima ef þeir mögulega geta.