Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Um 160 manns koma frá hááhættusvæðum í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Í dag tók gildi ný reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19. Í því felst meðal annars að þeim sem koma frá skilgreindum hááhættusvæðum er skylt að dvelja í sóttkví í sóttvarnahúsi nema þeir séu með gilt bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrra smit. Í dag koma tvær vélar til Íslands frá slíkum svæðum, annars vegar vél frá Amsterdam klukkan 15:25 og hins vegar frá Varsjá klukkan 23:20.

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúsa, segir að búist sé við um 100 manns í vélinni frá Amsterdam og rúmlega 60 manns í vélinni frá Varsjá. Gylfi gerir ráð fyrir því að stærstur hluti þessa fólks komi í sóttvarnarhús. Hann segir að þar séu nú um 270 manns, bæði Íslendingar og útlendingar, en að einhver hluti þess fólks muni útskrifast í dag.