Taka vel í alþjóðlegan lágmarksskatt á fyrirtæki

27.04.2021 - 08:05
epa08228166 French Economy Minister Bruno Le Maire leaves the Elysee Palace following the weekly cabinet meeting in Paris, France, 19 February 2020.  EPA-EFE/YOAN VALAT
Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands. Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjármálaráðherrar Þýskalands og Frakklands hafa tekið vel í hugmyndir Bandaríkjaforseta um að setja á alþjóðlegt viðmið um að fyrirtæki borgi 21 prósents skatt að lágmarki. Hugmyndin er sett fram til að sporna gegn því að stórfyrirtæki reki starfsemi sína á einum stað en láti tekjurnar koma fram annars staðar til að komast hjá skattgreiðslum. 

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst óánægju sinni með að alþjóðleg stórfyrirtæki hafi notað skattaskjól og glufur í löggjöf til að komast hjá skattgreiðslum. Þetta hafi leitt til þess að sum ríkustu fyrirtæki heims borgi lítinn eða engan skatt.

Rætt var við fjármálaráðherra Þýskalands og Frakklands í þýska fjölmiðlinu Die Zeit í dag. Þar sagði Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, að almenningur væri búinn að fá sig full saddan af því að fyrirtæki borguðu ekki sanngjarna skatta. Hann benti á að Frakkar hefðu mælt með 12,5 prósenta skattalágmarki á fyrirtæki. Le Maire sagði að ef samningaviðræður leiddu til 21 prósenta skattalágmarks myndu Frakkar samþykkja slíkt. Olaf Scholz, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði að nú væri rétti tíminn til að leitast eftir samkomulagi í sumar og kvaðst ekki hafa neitt á móti tillögu Bandaríkjamanna.
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV