
Heita 310 milljónum dala til mannúðaraðstoðar
Fjöldi fólks frá Gvatemala, Hondúras og El Salvador hefur yfirgefið heimalönd sín og haldið í norður að landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Harris varaforseti stjórnar aðgerðaáætlun Joes Biden forseta varðandi flóttamannavandann.
„Bandaríkin hyggjast leggja aukið fé til svæðisins og styrkja samvinnu ríkjanna til að hafa virka stjórn á fólksflutningunum með öryggi og mannúð að leiðarljósi,“ sagði Harris.
Efnahagsástandið í þessum löndum er bágborið og því hyggst Bandaríkjastjórn leggja til fé svo hægt verði að bregðast við fæðuskorti. Í nóvember urðu þau illa úti í tveimur fellibyljum, þurrkar hafa verið viðvarandi og kórónuveirufaraldurinn er skæður þar um slóðir.
Biden hefur farið þess á leit við fulltrúadeild Bandaríkjaþings að 861 milljónum dala verði varið til að takast á við rætur vandans.
Sömuleiðis hyggjast ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Gvatemala styrkja löggæslu svo hægt verði að glíma við glæpasamtök sem hagnast á flóttafólkinu og eins að opna flóttamannamiðstöðvar til að auka öryggi fólks á flótta.