Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Falsfréttin sem varð kveikjan að Óskarsmynd Dana

Danska kvikmyndin Druk, um fjóra menntaskólakennara á miðjum aldri sem ákveða að sannreyna kenningu um að manneskjunni vegni betur í lífinu ef hún er örlítið kennd, byggist á hugmynd sem eignuð hefur verið Finn Skårderud, norskum geðlækni.
 Mynd: Zentropa - DR

Falsfréttin sem varð kveikjan að Óskarsmynd Dana

27.04.2021 - 13:39

Höfundar

Óskarsverðlaunakvikmyndin Druk, með Mads Mikkelsen í aðalhlutverki, hefði aldrei aldrei orðið að veruleika ef ekki hefði verið fyrir full ákafan sumarstarfsmann á norskum fjölmiðli sem rangtúlkaði orð geðlæknis fyrir 20 árum.

Danska kvikmyndin Druk, um fjóra menntaskólakennara á miðjum aldri sem ákveða að sannreyna kenningu um að manneskjunni vegni betur í lífinu ef hún er örlítið kennd, byggist á hugmynd sem eignuð hefur verið Finn Skårderud, norskum geðlækni.

Kenningin hljóðar í einföldu máli svo að mannskepnan sé fædd með of lítið áfengismagn í blóðinu. Sé því hins vegar haldið stöðugu við 0,5 prómíl verði hún frjórri, meira skapandi og kjarkmeiri.

Þetta er hins vegar alls engin kenning, segir Skårderud, sem hefur reynt að leiðrétta misskilninginn í um 15 ár.

Danska kvikmyndin Druk, um fjóra menntaskólakennara á miðjum aldri sem ákveða að sannreyna kenningu um að manneskjunni vegni betur í lífinu ef hún er örlítið kennd, byggist á hugmynd sem eignuð hefur verið Finn Skårderud, norskum geðlækni.
 Mynd: DR
Finn Skårderud.

„Maður myndi líklega kalla þetta falsfréttir í dag. Það leið nokkur tími og svo komu ýmsar greinar í norskum fjölmiðlum. Það var líklega aðeins of ákafur sumarstarfsmaður sem rangtúlkaði textan gróflega,“ segir hann í viðtali við danska ríkisútvarpið.

Reynt að leiðrétta misskilninginn í 15 ár

Textinn sem hann vísar til er brot úr formála sem hann ritaði fyrir um 20 árum og birtist í útgáfu á rúmlega 200 ára ítalskri bók um áhrif áfengis á sálarlíf manneskjunnar. Skårderud segir að um sé að ræða eins slags hugsaða tilraun en ekki kenningu sem byggist á athugunum og tilraunum. „Það var rangt eftir mér haft, fannst mér og ég var mjög  pirraður á þessu. Þetta plagaði mig í 15 ár á internetinu,“ segir Skårderud. „Ég er geðlæknir og meðhöndla fólk sem er mjög illa haldið af alkóhólisma og hitti fjölskyldur þess. Þannig að það er heldur neyðarlegt að vera lýst sem talsmanni áfengis.“

Hugmyndin varð á vegi Thomasar Vinterbergs, leikstjóra kvikmyndarinnar Druk, á Facebook og vakti hún það mikla forvitni hjá honum að hann bauð Skårderud til að hitta sig yfir vínglasi í Kaupmannahöfn til að ræða um kenninguna og kvikmyndahandrit sem hann var með í smíðum.

Fékk sér nokkur glös með leikstjóranum

Þrátt fyrir að Skårderud hefði nokkrar áhyggjur af mannorði sínu sló hann til. „Ég fæ þetta spennnandi kvikmyndahandrit sent til mín og við hittumst í Kaupmannahöfn og fáum okkur nokkur glös. Mér finnst líklegt að við höfum náð 0,5 prómílum,“ segir hann og hlær. „Þetta er frábær kvikmynd. Hún er áhrifarík, margbrotin og frammistaða leikaranna er frábær. Nú er ég bara stoltur af því að hafa staðið nærri verkefninu.“

epa09160945 Thomas Vinterberg poses with the award for best international feature film for 'Another Round' in the press room at the 93rd annual Academy Awards ceremony at Union Station in Los Angeles, California, USA, 25 April 2021. The Oscars are presented for outstanding individual or collective efforts in filmmaking in 24 categories. The Oscars happen two months later than originally planned, due to the impact of the coronavirus COVID-19 pandemic on cinema.  EPA-EFE/Chris Pizzello / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Thomas Vinterberg, leikstjóri Druk, með Óskarsstyttuna á lofti.

Eftir að hafa séð myndina segist hann jafnvel vera opnari fyrir hugmyndinni sem öðlaðist sjálfstætt líf í meðhöndlun ákafa sumarstarfsmannsins og varð kveikjan að Óskarsverðlaunamynd.

„Við mættum velta meira fyrir okkur vinsældum ölvunarástands um heim allan,“ segir hann. Mikið sé rætt um neikvæðar afleiðingar áfengisdrykkju, fíknivandamálin henni tengdri og félagsleg vandamál. „En það er merkilega lítið skrifað um það af hverju langflest okkar drekkum. Kannski þarf ekki að rannsaka það, því við vitum jú að það lyftir upp stemningunni í veislum og við vitum að sum okkar verða kjarkmeiri við drykkju og viss persónueinkenni koma skýrar fram.“

Tengdar fréttir

Menningarefni

Nomadland, McDormand og Hopkins verðlaunuð

Menningarefni

Danska kvikmyndin Druk besta erlenda myndin

Leiklist

Drykkja Thomasar Vinterbergs er mynd ársins í Evrópu

Kvikmyndir

Mikkelsen rýfur þögnina eftir að hafa tekið stað Depps