Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

ESB og Bretland deila um fisk og rafmagn

27.04.2021 - 22:48
epa08112594 British Prime Minister Boris Johnson (L) welcomes European Commission President Ursula von der Leyen (R) to 10 Downing Street in London, Britain, 08 January 2020. Johnson and Leyen are expected to discuss the future relationship between Britain and the EU after Brexit.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Evrópusambandið getur lokað á aðgang Breta að evrópska raforkumarkaðnum ef þeir veita ekki evrópskum skipum aðgang að fiskimiðunum í samræmi við viðskiptasamning þeirra á milli. Atkvæði verða greidd um samninginn á Evrópuþinginu í fyrramálið.

Samningur um viðskiptasamband Breta og Evrópusambandsins þegar útganga Breta varð virk um áramótin náðist á aðfangadag jóla. Breska þingið hefur þegar samþykkt hann og Evrópuþingið ræddi hann í dag. 
Hluti af þessum samningi er að sérstakt leyfi þarf frá Bretum til veiða á breskum fiskimiðum. Bretar hafa þótt fullsparir á að veita slíkt leyfi. Þetta hefur haft áhrif á sjávarútveg margra þjóða, meðal annars Danmerkur.

„Ef við lítum aðeins á Danmörku undanfarin tvö ár þá vantar tvo þriðju veltunnar,“ segir Lars Andreasen, eigandi skipamíðastöðvar í Thyborøn.

Franskir sjómenn hafa einnig mótmælt þessum takmörkunum. Evrópusambandið virðist ætla að taka hart á þessu og benti í dag á að tengsl væru milli sjávarútvegsins og evrópska orkumarkaðarins.

„Við gætum til dæmis neitað Bretum um aðgang að evrópskri orku standi þeir ekki við loforð sín um aðgang að fiskimiðum,“ segir Christophe Hansen ritari Evrópuþingsins.

Annað deilumál er Norður-Írland, en samkvæmt samningnum verður það í raun hluti af innri markaði Evrópusambandsins, þannig að vörur sem koma annars staðar frá Bretlandi lúta eftirliti ESB. Sambandið telur misbrest hafa verið á því.

„Þetta samkomulag hefur beittar tennur, með bindandi ferli fyrir lausn ágreiningsmála og möguleikann á einhliða ráðstöfunum til úrbóta ef þörf er á. Höfum þá eitt á hreinu. Við viljum ekki þurfa að grípa til þessara úrræða en hikum ekki við það ef þörf krefur,“ sagði Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Atkvæði verða greidd um samninginn í fyrramálið og er fastlega búist við að hann verði samþykktur.