Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óheiðarlegar og ólýðræðislegar leikreglur í prófkjöri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður VG sem tapaði oddvitasæti sínu í Norðvesturkjördæmi segir leikreglurnar sem viðhafðar voru í prófkjörinu hvorki hafa verið heiðarlegar né lýðræðislegar. Hún ætlar að gefa sér tíma til að ákveða hvort hún taki annað sætið. Hún tapaði fyrir Bjarna Jónssyni, sveitarstjórnarfulltrúa í Skagafirði.

„Þegar bætast við 500 manns í flokkinn á örfáum vikum þá átti ég von á því að það væri verið að leita allra leiða til þess að  ná fyrsta sæti og það tókst en þannig eru bara leikreglurnar og maður verður bara að kyngja því“, segir Lilja Rafney.

„En mér finnst þetta ekki endilega vera heiðarlegar leikreglur eða lýðræðislegar í sjálfu sér og umhugsunarefni til framtíðar hvort þetta sé leiðin til þess að velja fólk á lista, að fjöldi manns komi inn og kannski fari út strax að forvali loknu,“ segir hún.

Lilja Rafney segist ekki taka niðurstöðunum sem höfnun eða gagnrýni á störf hennar. Leikurinn hafi verið ójafn og hafi hún búið sig undir að það hefði áhrif á úrslitin. „Ég finn og fann fyrir mjög miklum stuðningi við mín verk í kjördæminu og lít ekki á þetta sem gagnrýni á mín störf hér inni á þingi, langt því frá,“ segir hún.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir