Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Menntamálaráðherra telur Samherja ganga of langt

26.04.2021 - 15:10
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, telur Samherja ganga of langt í viðbrögðum sínum við fréttaflutningi Ríkisútvarpsins. Mikilvægt sé að fjölmiðlar séu frjálsir og geti fjallað um málefni líðandi stundar. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn frá þingmanni Samfylkingarinnar á Alþingi í dag.

Frjáls fjölmiðlun, tjáningarfrelsi og áhrif hagsmunaaðila voru áberandi efni í  fyrirspurnatímanum á þingi í dag. Til svara voru forsætisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heilbrigðisráðherra, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar spurði menntamálaráðherra álits á viðbrögðum Samherja við fréttaflutningi fréttaskýringaþáttarins Kveiks um starfshætti fyrirtækisins í Namibíu. Sagði hann varnir fyrirtækisins ekki hafa falist að því að hrekja umfjöllunina efnislega heldur sverta heimildamenn og veitast að fréttamönnum sem unnu efnið með kærum til siðanefndar og dreifingu á áróðursmyndböndum. 

„Fyrirtækið neitar að standa fyrir máli sínu við Ríkisútvarpið og svara efnislegum spurningum en heldur þráfaldlega fram að málið snúist um hatur viðkomandi fréttamanns og stofnunarinnar. [...] Ekki fer milli mála að ætlun forsvarsmanna fyrirtækisins er að hræða fréttamenn frá því að sinna vinnu sinni,“ sagði Guðmundur Andri og spurði Lilju um skoðun hennar á framgöngu fyrirtækisins og hvort hún styddi Ríkisútvarpið.

Frelsi fjölmiðla mikilvægt 

Lilja svaraði að hún væri sammála þingmanninum um mikilvægi frjálsra fjölmiðla. „Og að þeir geti fjallað um málefni líðandi stundar. Ég er spurð að því hvort ég styðji ekki Ríkisútvarpið. Og já, að sjálfsögðu geri ég það í þessari umfjöllun og orrahríð. Ég verð líka að segja það að mér finnst Samherji ganga of langt. Hann gengur of langt í sínum viðbrögðum.“ 

Hún greip til líkingar við laxveiði; að svo virtist sem reynt væri að þreyta laxinn og vonast til þess að hann gefist upp. „En þessi lax sem þeir eru að fást við, hann bregst frekar þannig við að hann er að styrkjast; hann syndir á móti straumnum og heldur áfram. Ég tel að stjórn Ríkisútvarspsins hafi brugðist rétt við, hvernig þau hafa tekið á þessu máli en það er mín skoðun að það skiptir auðvitað öllu máli að fjölmiðlar séu frjálsir og að við styðjum að sjálfsögðu við Ríkisútvarpið okkar og að ég tel að Samherji hafi gengið of langt.“
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV