Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

LSH langt undir heimsviðmiðunum í heilbrigðisrannsóknum

Mynd:  / 
Landspítalinn hefur dregist verulega aftur úr í heilbrigðisrannsóknum. Samkvæmt alþjóðlegum vísum sem notaðir eru til að meta vísindastarf er sjúkrahúsið nú undir heimsviðmiðunum. Hans Tómas Björnsson, yfirlæknir á Landspítalanum segir að einungis lítið prósent af fjármagni spítalans fari í rannsóknir og að stofna þurfi heilbrigðisvísindasjóð þar sem fjármagn er eyrnamerkt til rannsókna.

COVID-vesenið leyst með vísindum

Hans Tómas Björnsson er prófessor og yfirlæknir erfða- og sameindalæknisfræðideildar LSH. Hann situr líka í vísindanefnd Landspítalans og var einn af þeim sem ræddi um stöðu heilbrigðisrannsókna á Landspítalanum á Læknadögum síðast. 

Hans hefur aðsetur í hús Íslenskrar erfðagreiningar og af því hún hefur gengt stóru hlutverki í íslensku samfélagi núna á tímum COVID-19 er viðeigandi að spyrja hver séu tengsl hans við fyrirtækið.

„Ég er bara samstarfsmaður. Ég vinn ekki fyrir Íslenska erfðagreiningu eða svoleiðis en þeir hafa verið ofboðslega liðlegir. Þeir hafa verið að raðgreina fyrir okkur, ókeypis, börn með sjaldgæfa sjúkdóma.“
Hans hittir í tengslum við starf sitt á Landspítalanum margt fólk sem er með sjaldgæfa sjúkdóma og oft eru það börn sem illa hefur gengið að greina. Þá kemur fyrir að spítalinn fær hjálp hjá Íslenskri erfðagreiningu. 

Íslendingar hafa verið minntir á mikilvægi heilbrigðisrannsókna núna eftir að heimsfaraldurinn skall á. Viðbrögðin við honum byggja á rannsóknum í heilbrigðisvísindum en staða slíkra rannsókna á Landspítalanum er ekki góð ef marka má alþjóðlega vísa sem notaðir eru til að leggja mat á slíkt starf.

Hans var, ásamt fleirum, með málþing á Læknadögum í janúar síðastliðnum, sem nefndist Styrkir og vísindaárangur á Landspítala. „Ég held að það hafi komið vel í ljós að þetta covid-vesen það var í rauninni leyst með vísindum. Endalausnin er bólusetningin sem er vísindaleg lausn.“ Og ofboðslega margir hópar hafi komið að baráttunni við pestina, smitsjúkdómalækningar, faraldsfræðingar og fleiri og raðgreiningartækni til að rekja smitin. „Það sem veldur okkur áhyggjum og ástæðan fyrir þessu málþingi var að Ísland hefur verið að detta, það er Landspítalinn og Háskóli Íslands, á svona alþjóðlegum matslistum sem eru svona árangursvísar fyrir vísindi þá hafa heilbrigðisrannsóknir verið á niðurleið síðustu 3 ár.“ 

Landspítalinn var efstur en er nú neðstur

Hans segir Ísland sé ekki að falla bara á einum matslista heldur mörgum og þetta hafi verið að gerast síðastliðin 10 til 15 ár. Líklegast megi tengja þetta við hrunið þegar verulega var skorið niður. Vísindi séu hluti af almennum fjárráðum spítalans og þeim hafi ekki verið forgangsraðað. „Það er mjög lítil prósenta af veltu spítalans sem fer í vísindi.“ 

Árangursvísarnir sem talað er um í þessu sambandi er fjöldi birtinga í viðurkenndum vísindatímaritum, fjöldi einkaleyfa, stofnun sprotafyrirtækja, fjöldi mastersnema og doktorsnema, styrkir og upphæðir þeirra og fjöldi tilvitnana í íslenskar vísindagreinar sem er til marks um hvað vísindarannsókn hefur mikil áhrif á aðra vísindamenn. 

Samkvæmt upplýsingum frá NordForsk, sem er stofnun innan norrænu ráðherranefndarinnar sem hefur það markmið að stuðla að og styrkja norrænt rannsóknasamstarf, hefur staða Landspítala versnað. Ef borinn er saman árangur Landspítala við fimm önnur norræn sjúkrahús, háskólasjúkrahúsið í Kaupmannahöfn, Helsinki Central Hospital, Háskólasjúkrahúsið í Osló, Karolinska sjúkrahúsið og Sahlgrenska sjúkrahúsið í Svíþjóð sést að um aldamótin 2000 er langoftast vitnað í vísindarannsóknir sem gerðar voru á Landspítalanum. Rúmum áratug síðar á árunum 2011 til 2014 er Landspítalinn langneðstur og sá eini sem er langt undir heimsmeðaltalinu.

„Þetta er það sem er sorglegt. Ef þú horfir á þetta sögulega þá var Ísland að standa sig alveg svakalega vel fyrir 20 árum og svo hefur kerfisbundið verið að minnka framleiðnin út úr spítalanum.“ Vísindum hafi ekki verið gert nógu hátt undir höfði á spítalanum og hann telur að ein ástæðan sé hrunið. Minna hafi verið af peningum og spara þurfti á mörgum sviðum. „Og svona hlutir taka langan tíma að breytast. Það að eitthvað gott sé að gerast núna það skilar sér eftir 5 til 10 ár. Þannig að þetta eru líklega breytingar sem gerðust fyrir 10 árum.“ Þetta geti þýtt tvennt. Annaðhvort eru Íslendingar að standa sig verr eða hinir að standa sig betur. „Alla vega við vorum í ákveðinni stöðu en höfum dottið niður á listanum um mörg sæti á hverju ári. Þannig að við erum á niðurleið á þessum árangursvísum.“

Spennandi nýir tímar

Minna fjármagn sé sett í rannsóknir hér á landi í samanburði við t.d. önnur norræn sjúkrahús „Ég held að fjármagnið innan Landspítala sé mjög lítið. Á öðrum háskólasjúkrahúsum er það kannski 3-5% af veltu en það er undir prósenti held ég á Landspítalanum, þannig að það er lítill hluti af veltunni sem fer í vísindarannsóknir.“ 

Framundan eru spennandi tímar, segir Hans. Margt sé að gerast í erfðavísindum eins og t.d. CRISPR-Cas-tækni sem talað hafi verið um og nú sé verið að sigla inn í aðra líftæknibyltingu. „Þannig að þetta eru einstaklega spennandi tímar.“ Spennandi tenging sé að verða á milli læknisfræði og verkfræði. Mörg af þeim fyrirtækjum sem hafi komist á legg hér á landi séu annað hvort í verkfræði, læknisfræði eða læknisfræðiþróun, sem getur leitt til nýrra meðferðar og þess háttar. Nú sé tækifæri fyrir viðspyrnu. „Ég held að við þurfum að ákveða það. Það hafa verið plön í gangi fyrir heilbrigðisvísindasjóð. Ég held að það væri mjög góð leið til að svara þessu á sterkan hátt.“

Bandaríkjamenn hafi sýnt fram á að grunnrannsóknir séu góð fjárfesting. Fyrir hvern dollar sem settur sé í þær komi 44 dollarar til baka. Þeir hafi séð að mikið er að gerast í heilbrigðisvísindum og verkfræði og hafi aukið fjármunina þar ekki á kostnað hinna heldur bara bætt í þar. „Við erum enn þar sem Ameríka var 1970 þar sem allir fengu jafnt úthlutað. Við gerum það þannig hjá Rannís óháð hvað er að gerast í fögunum.“ Endalaust sé hægt að deila um hvað sé skynsamlegast en ljóst sé að það vantar meiri fjármuni í heilbrigðisvísindi. 

Stofna þarf heilbrigðisvísindasjóð

„Lífvísindi hafa staðið sig og ekki tapað stöðu sinni á listum en þessar heilbrigðisrannsóknir hafa verið að tapa stöðu sinni. Það þarf að gera eitthvað og það má helst ekki bíða í 10 ár. Ég veit að fólk hefur gaman að því að gera plön sem tekur 10 ár og svo eru hlutirnir gerðir á tíunda ári en ég held að það sé kominn tími fyrir viðspyrnu.“

Peningarnir þyrftu að vera eyrnamerktir svo ekki sé hægt að taka þá í önnur verkefni á spítala þar sem eru endalausar aðhaldskröfur. 

Hans bendir á að heimsfaraldrinum hafi verið mætt með vísindum. Með því að hafa virkt vísindastarf séum við betur í stakk búin til að takast á við átök eins og falist hafi í þeirri baráttu. Þetta verði ekki síðasti heimsfaraldurinn.

Langbesta leiðin til að dreifa fjármunum sé í gegnum samkeppnissjóði. Mismunandi svið geti sótt um í þá og bestu umsóknirnar fái framgang. „Það hefur sýnt sig alls staðar að það er lang besta leiðin til að dreifa fjármunum í þetta. Ekki búa til einhverja fasta eyðslu heldur frekar búa til sterka samkeppnissjóði. Og ég held bara að það vanti heilbrigðisvísindasjóð. Ég held að það sé ofsalega mikilvægt og það gæti snúið við þessu ferli þar sem við erum að sjá tap á stöðu okkar í heiminum. Við getum snúið þessu við og náð aftur okkar stöðu.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV