Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Landsnet kærir synjun Voga á leyfi fyrir loftlínu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsnet hefur ákveðið að vísa ákvörðun Sveitarfélagsins Voga um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 með loftlínu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Vogar höfnuðu umsókninni í lok mars en þá höfðu Grindavík, Hafnarfjörður og Reykjanesbær samþykkt hana. Landsnet heldur því fram að öll skilyrði laga fyrir veitingu framkvæmdaleyfis hafi verið uppfyllt og því sé höfnun Voga ólögmæt auk þess sem hún veki upp mörg álitamál sem nauðsynlegt sé að fá skorið úr um.

Vogar telja vænlegra að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörð og nú þegar hafa fimm umhverfisverndarsamtök kært framkvæmdaleyfi Landsnets fyrir því að leggja línuna sem loftlínu. Samtökin, Hraunavinir, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Ungir umhverfissinnar, telja að með framkvæmdinni séu lög brotin og furða sig á því að Landsnet fari ekki eftir mati Skipulagsstofnunar. 

Loftlína verst fyrir náttúru og ferðaþjónustu

Suðurnesjalínu 2 er ætlað að auka flutningsgetu og afhendingaröryggi raforku til og frá Suðurnesjum og Landsnet vill leggja hana sem loftlínu, 34 kílómetra leið frá Hamranesi í Hafnarfirði að Rauðamel í landi Grindavíkur. 

Landsnet fékk fyrst framkvæmdaleyfi árið 2013 en landeigendur kærðu leyfið og kröfðust þess að línan yrði lögð í jörð. Hæstiréttur ógilti framkvæmdaleyfið árið 2016 á þeim grunni að umhverfismatið í kringum framkvæmdina hefði verið gallað og ekki hefðu verið skoðaðir nógu margir kostir.

Í nýju mati Skipulagsstofnunar sem var birt í fyrra voru sex möguleikar skoðaðir. Stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að loftlína meðfram Suðurnesjalínu, sá kostur sem Landsnet telur ákjósanlegastan, hefði mest neikvæð áhrifin í för með sér á landslag og ásýnd, ferðaþjónustu og útivist, vistgerðir og gróður og fuglalíf. Í því tilliti væri jarðstrengur betri kostur, einnig ef litið væri til byggðaþróunar og hugsanlegrar byggingar flugvallar í Hvassahrauni. 

„Eitt af markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum er að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda. Skipulagsstofnun telur umhverfismat Suðurnesjalínu 2 hafa leitt í ljós að lagning línunnar sem jarðstrengs sé best til þess fallin að vinna að því markmiði, og þá sé æskilegasti kosturinn valkostur B meðfram Reykjanesbraut,“ segir í matinu.

Vogar vísa í mat Skipulagsstofnunar

Sveitarfélagið Vogar telur rétt að línan verði lögð í jörð og vísar í mat Skipulagsstofnunar. Eitt af því sem Skipulagsstofnun bendir á er að Suðurnesjalína 2 sé umfangsmikið mannvirki sem fari yfir langan veg, þar sem landslag er opið og víðsýnt, náttúrufar verndað samkvæmt lögum um náttúruvernd auk þess sem það hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu og vottun UNESCO vegna jarðfræðilegrar sérstöðu. Línan eigi að liggja nálægt einum fjölfarnasta þjóðvegi landsins, sem jafnframt er gátt erlendra ferðamanna inn í landið og nærri vinsælum útivistarsvæðum í grennd við þéttbýlasta svæði landsins.

Í greinargerð Voga segir að sveitarfélagið hafi ítrekað bent á að aðalvalkostur Landsnets, sem sótt er um, lagning loftlínu samkvæmt valkosti C, hafi mest neikvæð áhrif allra skoðaðra valkosta í umhverfismati Skipulagsstofnunar. Sveitarfélagið tekur undir þau sjónarmið Skipulagsstofnunar að auk umhvefissjónarmiða mæli byggða- og atvinnuþróun á Suðurnesjum frekar með því að línan verði lögð í jörð.

Landsnet á öðru máli

Í nýrri yfirlýsingu frá Landsneti segir að Suðurnesjalína 2 sé mikilvæg framkvæmd til að tryggja raforkuöryggi íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum og að stjórnvöld hafi sett svæðið í forgang við uppbyggingu flutningskerfisins, enda sé öryggi raforkukerfisins á svæðinu ábótavant og mikilvægt að bæta þar úr sem fyrst. Ákvörðun Voga um að hafna framkvæmdaleyfinu, þrátt fyrir að Landsnet hafi uppfyllt öll skilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis, hafi verið vonbrigði og setji verkefnið í uppnám.

Umsóknir Landsnets um framkvæmdaleyfin fyrir Suðurnesjalínu 2 hafi byggt á samþykktri kerfisáætlun og ítarlegum undirbúningi þar sem mat hafi verið lagt á umhverfisáhrif ólíkra valkosta og hagsmunaaðilum tryggð aðkoma „í gegnum vandað samráðsferli frá fyrstu stigum“. 

Þá telur Landsnet að loftlínuvalkosturinn tryggi best afhendingaröryggi raforku, af þeim kostum sem voru skoðaðir. „Rannsóknir við undirbúning verkefnisins sýna að svæðið er útsett fyrir jarðskjálftum og eldgosum sem gerir það að verkum að jarðstrengskostur er ekki góður á þessu landsvæði. Hætta er á að hraunrennsli og miklar hreyfingar á landinu skemmi jarðstreng en loftlínur þola umtalsverða hreyfingu auk þess sem hægt er að verja möstrin fyrir hraunrennsli með varnargörðum. Líkurnar á því að unnt verði að tryggja öruggt rafmagn við erfiðar aðstæður á Reykjanesi eru því mun meiri með loftlínu,“ segir í yfirlýsingunni.

Vogar komu inn á þær ábendingar í greinargerð sinni: „Ábendingar Landsnets um villur í mati Skipulagsstofnunar um áhrif jarðskjálfta á jarðstreng og ný gögn um að loftlína sé öruggari valkostur en jarðstrengur gagnvart „höggunarhreyfingum“ breyta ekki niðurstöðu bæjarstjórnar,“ sagði í greinargerð bæjarstjórnar Voga sem fylgdi ákvörðuninni í lok mars. 

Segja jarðstreng fela í sér viðbótarkostnað

Í yfirlýsingu Landsnets segir að jarðstrengsvalkostur feli í sér umtalsverðan viðbótarkostnað sem notendur raforku þyrftu að borga. „Auk þess sem sá kostur fellur ekki að stefnu stjórnvalda um lagningu raflína í flutningskerfinu og er ekki í samræmi við raforkulög. Í ljósi þessa er Landsneti að lögum ekki heimilt að ráðast í dýrari framkvæmd enda hafi dómstólar komist að niðurstöðu um að líta beri til sjónarmiða um hagkvæmni og öryggi við ákvarðanir uppbyggingu flutningskerfisins, m.a. viðmiða stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Á því byggist m.a. ákvörðunin um að kæra höfnun Sveitarfélagsins Voga á framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2,“ segir í yfirlýsingunni.