Húsvíkingar að rifna úr stolti þrátt fyrir enga styttu

26.04.2021 - 17:30
Mynd: RÚV / RÚV
Engin Óskarsverðlaunastytta kemur til Íslands þetta árið. Margir höfðu gert sér vonir um að lagið Húsavík í flutningi sænsku söngkonunnar Molly Sandén og stúlknakórs úr Borgarhólsskóla hlyti styttuna eftirsóttu.

Húsvíkingar fylgdust spenntir með 

Húsavík setti svo sannarlega svip sinn á hátíðina í gær. Þar í bæ má reikna með að alla skálar hafi verið fullar af poppi í gær þegar fólk fylgdist spennt með sínu framlagi. Ein þeirr var Hrefna Jónsdóttir. „Það kom mér á óvart hvað mér fannst þetta flott,“ sagði Hrefna. 

Varstu með partý á þínu heimili til að fylgjast með?

„Nei ég bý nú ein svo það hefði orðið fámennt í því partýi.“

„Eigum bara eftir að græða ógeðslega mikið á þessu“

Við upphaf hátíðarinnar í gærkvöld voru lögin sem tilnefnd voru sem besta lagið spiluð fyrir milljónir áhorfenda um allan heim. Óhætt er að segja að þeir Húsvíkingar sem fréttastofa ræddi við hafi verið ánægðir með útkomuna. 

„Ég er ógeðslega ánægður með þetta og þetta á eftir að gera svo mikið fyrir þennan stað sko,“ sagði Óskar Guðmundsson. Halla Rún Tryggvadóttir tók í sama streng.

„Mér fannst þetta geggjað, mér fannst þetta æðislegt. Ég er búin að horfa á þetta oft og ég fer alltaf að gráta.“

Hvaða þýðingu heldurðu að þetta geti haft fyrir Húsavík?

„Ég held þetta verði bara eitthvað æðislegt. Þetta er ótrúlega flott auglýsing og við eigum bara eftir að græða ógeðslega mikið á þessu. Það er allavegana búið að tala um þetta í ógeðslega mörgum fjölmiðlum og svona þannig að það kemur bara fullt af fólki til Húsavíkur þegar það má.“