Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Þrjú lönd sem hafa haldið COVID í skefjum í Evrópu“

25.04.2021 - 20:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Bjørn-Inge Larsen, einn æðsti embættismaðurinn í norska heilbrigðisráðuneytinu gagnrýnir ráðleggingar Sóttvarnastofnunar Evrópu um að landamærin ættu að haldast opin. Hann segir að aðeins þremur löndum í Evrópu hafa tekist að halda COVID-19 í skefjum; Íslandi, Finnlandi og Noregi Þau eigi það sameiginlegt að hafa alla tíð haft annað augað á landamærunum.

Þetta kemur fram á vef NRK. Þegar kórónuveirufaraldurinn hófst gripu mörg lönd til þess að loka landamærunum.  Sóttvarnastofnun Evrópu, sem í daglegu tali er kölluð ECDC, lagðist gegn þessum aðgerðum og taldi þær ekki skila neinum árangri, þær væru jafnvel skaðlegar

En nú telur Bjørn-Inge Larsen, æðsti embættismaðurinn í norska heilbrigðisráðuneytinu, að þessar ráðleggingar hafi verið mistök. Hann lét þessi ummæli falla á lokuðum fundi nefndar sem ætlað er að fara yfir viðbrögð stjórnvalda í Noregi við farsóttinni. Hann vildi ekki tjá sig neitt frekar um málið  við norska ríkisútvarpið.

Í umfjöllun NRK kemur fram að ECDC, hafi gefið út leiðbeiningar um hvernig ætti að bregðast við kórónuveirufaraldrinum og þar var löndum ráðið frá því að loka landamærunum.  „Það má segja margt gott um ECDC en hún gerði líka alvarleg mistök í faraldrinum.  Við erum sannfærð um að aðgerðirnar sem gripið var til á landamærunum hafi verið eitt mikilvægasta verkfærið sem við beittum.“ 

Larsen segir ráðleggingar ECDC hafi byggt á endurskoðun Alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar sem ráðist var í eftir SARS-faraldurinn 2002. Hann tók sjálfur þátt í þeirri endurskoðun. „Að mínu mati var þetta algjörlega rangt. Þau þrjú lönd sem hafa verið með augun á landamærunum eru Ísland, Finnland og Noregur og þetta eru einu löndin í Evrópu sem hafa haldið faraldrinum í skefjum.“

Í umfjöllun NRK kemur fram að ráðleggingar ECDC hafi haft áhrif til hvaða aðgerða var gripið í Noregi í upphafi faraldursins. TIl að mynda hafi norska landlæknisembættið mælt gegn því í febrúar á síðasta ári að farþegar yrðu skimaðir við kórónuveirunni og þeir skikkaðir í sóttkví.  Vísaði embættið meðal annars til ráðlegginga ECDC.  Aðeins þremur vikum síðar ákváðu stjórnvöld að loka landamærum sínum. 

Um sumarið voru landamærin opnuð aftur sem leiddi til þess að faraldurinn náði sér aftur á flug.  Nefndin telur að stjórnvöld hafi ekki haft neina áætlun um hvernig ætti að bregðast við smitum sem láku í gegnum landamærin þegar ný bylgja var að skella á í Evrópu. 

Agoritsa Baka hjá ECDC segir við NRK að henni þyki miður að Larsen skuli meta ráðgjöf stofnunarinnar á þennan hátt. Engar rannsóknir hafi bent til þess að lokun landamæranna myndi skipta máli á þessum tíma. „En nú mælumst við til þess að lönd fari varlegra og skimi farþega til að stytta sóttkví.“ 

Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða á landamærunum hér á landi til að koma í veg fyrir að smit leki í gegn. Ný reglugerð tekur gildi á þriðjudag þar sem farþegum frá 16 löndum verður skylt að vera í sóttkví í sóttvarnahúsi og farþegar frá 16 öðrum löndum þurfa einnig að vera í sóttvarnahúsi en geta sótt um undanþágu til sóttvarnalæknis.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV