Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir frumvarp Svandísar hafa verið samið á einum degi

25.04.2021 - 11:58
Mynd: Skjáskot / RÚV
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, segir að frumvarp Svandísar Svavarsdóttur um hertar aðgerðir á landamærunum hafi verið samið á einum degi. Hún gagnrýnir þá flýtimeðferð sem frumvarpið fékk og segir velferðarnefnd ekki hafa fengið tíma til að tryggja að „breytingin væri ekki að brjóta lög.“ Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir ríkisstjórnina hafa reynt að klára málið í flýti til sem viðbrögð við einhverju. „Málið er bara keyrt í gegn.“

Sigmundur og Halldóra voru gestir Silfursins ásamt Vilhjálmi Árnasyni, varaformanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins.  

Halldóra sagði Pírata hafa talað fyrir því að vernda líf og heilsu fólks í kórónuveirufaraldrinum en þau hefðu sett spurningamerki við þá flýtimeðferð sem hefði verið í gangi. „Það þarf að passa þetta vel og vanda okkur þegar við erum að skerða réttindi því annars hef ég áhyggjur af því að þetta hrynji fyrir dómstólum eins og gerðist síðast. “

Hún segir að ekki hafi gefist tími til að tryggja að breytingin sem var gerð væri ekki að brjóta lög.  Frumvarpið hafi verið unnið á einum degi þrátt fyrir að nærri þrjár vikur voru liðnar frá úrskurði héraðsdóms. „Mér finnst ríkisstjórnin ekki hafa verið nægilega vel undirbúin. Fullt af sérfræðingum sem komu fyrir velferðarnefnd höfðu uppi varnaðarorð en það er ekki reifað í nefndarálitinu. “

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði frumvarpið vera viðbrögð ríkisstjórnarinnar við einhverju. „Hún kippti sér ekki upp við úrskurð héraðsdóms en svo komu einhverjar skoðanakannanir um hertar aðgerðir og svo frumvarp Samfylkingarinnar og þá er reynt að klára málið í flýti.“  Svo virtist sem frumvarpið væri gert án samráðs við sóttvarnalækni og ríkisstjórnin hafi bara lagt fram eitthvað mál. „Og það er nú ekki gæfulegt.“

Sigmundur sagði að ekki hefði verið fallist á að hafa fund velferðarnefndar opinn heldur hafi málið verið keyrt í gegn. „Þetta er því miður alltof einkennandi fyrir það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum,“ sagði Sigmundur  og undraðist að Ísland skyldi ekki hafa nýtt sér sérstöðu sína við kaup á bóluefnum.

Vilhjálmur Árnason, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sagðist hafa fundið eftir úrskurð héraðsdóms að ekki hefði verið almennur stuðningur við þá aðgerð og að samstaðan væri að einhverju leyti að bresta.  Vissulega hefði frumvarpið verið samið hratt en fólk væri núna upplýst af hverju það þyrfti að grípa til þessara aðgerða og að þær væru afmarkaðar. Hann taldi að tekist hefði að sameina almenning á bakvið þessar aðgerðir og þær væru skref í rétta átt. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV