Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Andinn í vélinni

Mynd: Benedikt / Benedikt

Andinn í vélinni

25.04.2021 - 10:57

Höfundar

Á dögunum var opnuð í Hjarta Reykjavíkur við Laugaveg sýningin Með tveimur fingrum þar sem sjá má myndljóð eftir rithöfundinn Óskar Árna Óskarsson. Óskar hefur fengist við myndljóðagerð í ríflega tuttugu ár en hann er einkum þekktur fyrir ljóðlist sína og smáprósa, auk þess sem hann hefur fengist við þýðingar.

Elstu ljóðin á sýningunni eru frá árinu 1997. „Það eru ljóð sem komu út í sérriti Bjarts og frú Emilíu og hét Án orða,“ segir Óskar, „elstu ljóðin eru úr því, önnur miklu nýrri, og sum alveg splunkuný.“ Óskar hefur sinnt myndljóðunum frá þessum tíma en með löngu hléi. „Þegar kemur andi í ritvélina þá vinn ég þetta í skorpum, svo kemur ládeyða og ekkert er að gerast, og bara dauður sjór. Eftir að þetta hefti kom út '97 þá varð langt hlé, svo tók ég þetta aftur upp í kringum 2016/2017. Þetta kemur í skorpum. Það koma kannski bara fjögur, fimm, sex ljóð á dag, í kannski tíu daga, og síðan allt dautt, þá er einhver andi í vélinni. Ég vinn svona, ljóðabækur mínar hafa líka orðið svona til.“

Truflanir í Vetrarbrautinni, Handklæði í gluggakistunni, Einnar stjörnu nótt

Óskar Árni Óskarsson fæddist í Reykjavík 3. október 1950. Hann ólst upp í Þingholtunum og gekk í Miðbæjarskólann. Hann stundaði nám í Samvinnuskólanum á Bifröst 1969 – 1971 og sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Handklæði í gluggakistunni, árið 1986. Samhliða ritstörfum starfaði hann lengi sem bókavörður. Óskar Árni hefur einkum fengist við ljóðagerð og ljóðaþýðingar og meðal annars sent frá sér þrjár bækur með japönskum hækuþýðingum eftir skáldin Kobayashi Issa, Matsuo Basho og Yosa Buson. Hann ritstýrði og gaf út bókmenntatímaritið Ský sem kom út á árunum 1990 – 1994. Ljóð eftir Óskar Árna hafa birst í fjölmörgum tímaritum og sýnisbókum, íslenskum sem erlendum. Hann hefur þýtt verk eftir höfunda á borð við Raymond Carver, William Saroyan, Olav H. Hauge, Oscar Wilde, James Joyce og Russell Edson. Nýjasta bók Óskars kom út á síðasta ári og nefnist Vatnaleiðin en hún hefur að geyma dagbókarfærslur frá árinu 2009 þegar hann dvaldi um sex mánaða skeið sem gestalistamaður í Vatnasafninu í Stykkishólmi, auk ljósmynda eftir Einar Fal Ingólfsson.

Fimm ára nám í vélritun

Sýning Óskars í Hjarta Reykjavíkur nefnist eins og áður segir Með tveimur fingrum sem vísar auðvitað til þess hvernig Óskar vinnur ljóðin. „Ég er nú ágætur vélritari, hef meira að segja held ég fimm ára nám í vélritun, sem ég held að sé afar sjaldgæft. Ég nota venjulega fleiri en tvo fingur við þýðingar og ljóðagerð, en við þessi ljóð, af því að þetta er svolítil kúnst, þá nota ég tvo fingur og sýningin ber það heiti.“

Silver Reed EZ 21

Óskar Árni gaf út á síðasta ári bók með myndljóðum sem nefnist Af himnum ofan og tilheyrir bókaflokki sem hann gefur út með dóttur sinni Nínu undir heitinu Þrjár hendur. Á sýningunni í Hjarta Reykjavíkur koma ýmsar þjóðþekktar persónur við sögu, meðal annars rithöfundarnir Tómas Guðmundsson, Steinn Steinarr og Bragi Ólafsson. Auk þess sem Óskar bregður upp svipmyndum frá Reykjavík og Lundúnum, svo dæmi sé tekið. Óskar vinnur myndljóðin á fjórar ritvélar. „ Ég á núna fjórar ritvélar, það eru tvær rafmagnsritvélar og tvær manual vélar.“ Óskar segir að hefð myndljóðagerðar sé ævaforn. „Það er löng hefð fyrir þessu, ég er ekkert að finna þetta upp. Þetta er alveg frá sjöttu öld fyrir Krist. Grikkir gerðu úr sínu letri ker og staup og slíkt, úr stöfum. Og 20. öldin er full af þessu, módernistarnir, Flúxus-hreyfingin, Apollinaire, E. E. cummings (Edward Estlin Cummings) og fleiri og fleiri.“ Á Íslandi hafa skáldin Gyrðir Elíasson og Ísak Harðarson fengist við myndljóð, báðir gerðu það í upphafi ferils. „Ísak Harðarson bjó til atómsprengjuna, kjarnorkusprengjuna, skýið með bókstöfum eða orðum réttara sagt. En það hafa aðallega verið myndlistarmenn sem hafa fengist við þetta, það er af svolítið öðrum toga. Þetta er miklu meira bókmenntalegt hjá mér heldur en myndlistarlegt.“

Sýningin Með tveimur fingrum stendur yfir í Hjarta Reykjavíkur við Laugaveg til 9. maí. Rætt var við Óskar Árna Óskarsson í Víðsjá.