Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vonar að íbúar geti snúið til síns heima í sumar

24.04.2021 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
„Okkur þykir þetta mjög til bóta. Það er gott að það er eitthvað að gerast í þessu eftirliti en þetta hefði þurft að gerast miklu fyrr. Það þarf að grípa til aðgerða, það er alveg ljóst. Við vonum að tíminn verði nýttur vel og aðgerðir kláraðar í sumar,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði.

Umhverfisstofnun skilaði í vikunni niðurstöðum úr rannsókn sinni vegna bensínleka sem varð úr birgðatanki N1 á Hofsósi árið 2019. Þar kemur fram að mengun sé enn á svæðinu þrátt fyrir hreinsunaraðgerðir og að frekari aðgerða sé þörf. Þá þurfi að tryggja að mengun sé innan skilgreindra heilsuverndarmarka.

N1 hefur þegar skipt úr leka olíutanknum út fyrir nýjan, mengaður jarðvegur við stöðina var fjarlægður og nýjar eldsneytisdælur settar upp. Þá bauð fyrirtækið húseigendum að lofta út með sérstökum búnaði.

Stofnunin hefur krafist þess að N1 skili úrbótaáætlun ekki síðar en 10. maí. „Ég vona að þessu ljúki núna í sumar, að menn hreinsi þetta á mannsæmandi hátt og íbúar geti snúið til síns heima og fyrirtækið hafið starfsemi að nýju,“ segir Sigfús.