Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Það fyrsta sem ég hugsa er: Er honum alvara?“

Mynd: Samsett / RÚV

„Það fyrsta sem ég hugsa er: Er honum alvara?“

24.04.2021 - 14:50

Höfundar

„Hann er klæddur í einhvern „wannabe“ gull-rappbúning með svitaband og sólgleraugu, með loðfjaðrir og fullt af skröttum í keðjum,“ segir Selma Björnsdóttir sem er alls ekki hrifin af atriði Noregs í Eurovision í ár þó lagið sé grípandi. Álitsgjafar Alla leið eru ekki sammála um hvort söngvarinn sé að grínast með atriðinu eða ekki.

Í öðrum þætti Alla leið var farið yfir lögin sem taka þátt í seinni hluta fyrri undanúrslita Eurovision í Rotterdam í maí. Á meðal þeirra laga sem klufu dómnefndina í þessum þætti er lag Noregs, Fallen Angel, með söngvara sem kallar sig TIX. Með laginu tókst hinum umdeilda söngvara að skáka Eurovision-stjörnunum í Keiino í heimalandinu, sem höfnuðu í sjötta sæti í úrslitum Eurovision árið 2019 og fengu flest stig allra landa úr atkvæðakosningu almennings, en dómnefnd dró þau niður. Það er óhætt að segja að Keiino hafi sigrað hjörtu Evrópu fyrir tveimur árum og því kom mörgum á óvart að TIX tækist að hafa betur í Melodi Grand Prix keppninni í Noregi í ár.

Umsjón með Alla leið hefur Felix Bergsson og fastir álitsgjafar í ár eru þau Helga Möller og Sigurður Þorri Gunnarsson. Heiðursgestir að þessu sinni eru góðkunningjar þáttarins og Eurovision-kempurnar Selma Björnsdóttir og Friðrik Dór.

„Strákur sem hefur komist í gegnum margar hindranir í lífinu“

Sigurður gefur hinum norska TIX tólf stig, eða fullt hús stiga. „Ég heillaðist strax við fyrstu hlustun, ég veit ekki hvað það er. Mér finnst þetta vel samið lag, það tekur tuttugu sekúndur og við erum komin inn í brúna og þrjátíu sekúndur og við erum komin inn í viðlagið sem er svona heilalím.“ Sigurður segir textann góðan og sögu söngvarans magnaða. „Þetta er strákur sem hefur komist yfir margar hindranir í lífinu.“

Litlir ljótir andarungar geta orðið svanir

Sigurður fylgdist með Grand Prix keppninni í Noregi í ár og heillaðist ekki síst af hjartnæmri ræðu sem TIX hélt þegar ljóst var að hann væri fulltrúi Noregs í Eurovision í ár. „Hann hélt litla ræðu þegar hann var krýndur sigurvegari þar sem hann sagði: Ég hef alltaf upplifað mig sem litla ljóta andarungann, bæði í tónlistarbransanum og þegar ég var að alast upp. En núna vona ég að þið sjáið að litlir ljótir andarungar geta orðið svanir.“

Loðfjaðrir, svitaband og sólgleraugu

Selma er ekki eins hrifin og gefur laginu bara fimm stig. Við fyrstu hlustun þótti henni lagið grípandi en þegar hún horfði á atriðið var henni illa brugðið. „Það fyrsta sem ég hugsa er bara: Er honum alvara?“

Hún er alls ekki hrifin af klæðaburði söngvarans eða sviðsetningunni. „Hann er klæddur í einhvern wannabe gull rappbúning með svitaband og sólgleraugu. Með loðfjaðrir og fullt af skröttum í keðjum að gera eiginlega ekkert nema að trufla fókusinn minn. Þau eru ekki að dansa neitt.“

Tók upp nafnið sem notað var sem uppnefni til að stríða honum

Hún ber þó virðingu fyrir tónlistarmanninum og þess sem hann talar fyrir, að opna umræðuna um andlega erfiðleika. „Hann hefur talað opinskátt um þunglyndi og sjálfsvígshugsanir og tekur upp þetta nafn, TIX, því þau sem lögðu hann í einelti kölluðu hann það. Hann ákvað að eigna sér það og gera það að listamannsnafninu sínu.“ Það dugar þó ekki til að bjarga atriðinu að mati Selmu. „Ég held að þessi performans muni draga lagið niður og þess vegna gef ég því fimm.“

„Gaf mér að þessi maður væri að grínast“

Friðriki Dór þykir lagið fínt og atriðið fyndið og hann gefur því átta. „Þetta er bara popplag, ekkert brjálað ris en solid húkkur. Svo gaf ég mér að þessi maður væri að grínast,“ segir Friðrik og ítrekar að uppsetningin sé fyndin. „Mér finnst alltaf í svona söngvakeppni að ef þú ert með grínatriði sem er með gæði, þá er ég alltaf bara já þetta er fínt og ég er til í þetta. En kannski er hann ekki að grínast.“

„Þetta var ekki góð hugmynd, alls ekki“

Helga gefur laginu sjö en kveðst sammála Selmu um að atriðið sé ekki nógu gott. „Þegar ég sá þetta fyrst hugsaði ég: Lagið er æðislegt, ég fíla lagið og sjöan er fyrir það en mér finnst mjög skrýtin uppsetning á þessum búningi og djöflunum. Þetta var ekki góð hugmynd, alls ekki.“

Hér er hægt að horfa á Alla leið í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Virðist vera góð auglýsing fyrir Sputnik bóluefnið“