Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sá eini utan sóttkvíar reyndist vera í sóttkví

24.04.2021 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Sá eini sem greindist með kórónuveiruna utan sóttkvíar í gær reyndist vera í hálfgerðri sóttkví. Því þótt hann hafi ekki verið skráður í sóttkví sjálfur var hann í sóttkví með barni sínu. Þetta staðfestir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra, í samtali við fréttastofu. Alls greindust 17 smit í gær, flest öll tengjast hópsmitinu á leikskólanum Jörva.

Um helgar hefur sá háttur verið hafður á að bráðabirgðatölur berast frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og vefurinn covid.is er ekki uppfærður. 

Fréttablaðið hefur eftir Jóhanni Birni Skúlasyni, yfirmanni smitrakningateymisins, að enginn hafi verið útsettur af smitinu sem sagt var utan sóttkvíar í morgun.    Hann vonar að þeim hafi tekist að ná utan um hópsýkingarnar tvær sem hafa verið í gangi og tengjast annars vegar leikskólanum Jörva og hins vegar matvælafyrirtæki. Báðar má rekja til farþega sem hlýddu ekki fyrirmælum um sóttkví við komuna til landsins.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjóni hjá almannavörnum, segir í samtali við mbl.is að næstu tveir dagar einkennist af því að stórar hópar klári sóttkví. Það sé því viðbúið að nokkur fjöldi greinist áfram. „Bara svo lengi sem það virðist hafa náð öll­um í sótt­kví sem tengd­ust þessu, þá er það stóra málið – að smitrakn­ing­in hafi gengið upp.“ 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV