Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Möttulgos heldur vísindamönnum uppteknum næstu árin

Mynd: Roger Goodman / Creative Commons
Breytingar eru að verða á efnasamsetningu eldgossins í Geldingadölum. Enn er of snemmt að spá fyrir um hvaða áhrif breytingarnar hafa á framgang gossins en þegar er ljóst að jarðeldurinn mun halda jarðvísindamönnum uppteknum næstu árin.

Í fyrradag urðu þau þáttaskil að hraunið í Geldingadölum hefur náð einum ferkílómetra að stærð. Hraunið er óvenju þykkt fyrir svo lítið gos, sem orsakast af því að gosið hefur verið að fylla Geldingadali. Er hraunið allt að 50 metra þykkt þar sem það er þykkast.

Hraunrennslið er nokkuð stöðugt, engin þreytumerki að sjá á gosinu og engar vísbendingar um hversu lengi það mun standa, að því er segir á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Nýjar mælingar sýna þó breytingar á efnasamsetningu hraunsins. Fram hefur komið að kvikan úr eldgosinu komi beint úr möttli jarðar en undanfarið hefur ný bráð verið að ryðja sér leið upp á yfirborðið. „Við erum að sjá kviku verða til, við erum í raun að sjá aðdragandann að gosi eins og þessu. Við erum að sjá þessa bráðaskammta sem alltaf þurfa að koma saman og búa til þessa bráð sem í fæstum tilfellum megnar að koma upp á yfirborðið. Þessari tókst það,“ segir Sæmundur Ari Halldórsson, jarðefnafræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Möttullinn loks aðgengilegur

Sæmundur segir þetta sjaldgæft í íslenskum eldgosum á síðari tímum en nefnir þó Surtseyjargosið sem hófst árið 1963 og stóð í hálft fjórða ár. Of snemmt er að segja til um hvaða áhrif þessar breytingar á efnasamsetningunni hafa á framgang gossins.

Það er hins vegar ljóst að eldgosið í Geldingadölum hefur reynst jarðvísindamönnum fjarsjóðskista og verður það áfram næstu árin.  „Svona möttulgos eru vissulega mjög áhugaverð fyrir einhvern eins og mig svo dæmi sé tekið. Ég hef nú mikið verið að rýna í möttulinn og reyna að skoða einhvern veginn hans hlutverk í þessu öllu saman sem er jú augljóslega mjög mikið. En hann er jú ekki aðgengilegur en þarna erum við að fá einmitt einstakt tækifæri til að fá efni djúpættað, beint úr möttli. Þannig að tækifærin sem felast í þessu fyrir rannsóknir komandi ára eru mjög mikil og mjög spennandi,“ segir Sæmundur Ari.

Magnús Geir Eyjólfsson