Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mengun enn í jarðvegi þrátt fyrir hreinsunaraðgerðir

24.04.2021 - 09:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Umhverfisstofnun telur að frekari hreinsunaraðgerða sé þörf á Hofsósi þar sem bensínleki varð úr birgðatanki N1 fyrir tveimur árum. Mælingar sem framkvæmdar hafa verið eftir hreinsunaraðgerðir síðasta sumar benda til þess að mengun sé enn í jarðvegi undir vegi eða öðrum mannvirkjum sem leitar í þá stefnu sem grunnvatnið streymir.

Í desember 2019 neyddist fjölskylda á Hofsósi til að flytja úr húsi sínu vegna bensínmengunarinnar. Þá var lyktarmengun í verslun KS á Hofsósi auk þess sem loka þurfti veitingastað á staðnum vegna sömu mengunar. N1 hefur ráðist í ýmsar mótvægisaðgerðir. Leka olíutanknum var skipt úr fyrir nýjan, mengaður jarðvegur við stöðina var fjarlægður og nýjar eldsneytisdælur settar upp. Þá bauð N1 húseigendum að lofta út með sérstökum búnaði.

Byggðarráð Skagafjarðar hefur gagnrýnt Umhverfisstofnun harðlega fyrir seinagang við rannsókn á menguninni. Sveitarfélagið hóf sjálfstæða rannsókn og fékk verkfræðistofuna Eflu til að gera úttekt á menguninni. Umhverfisstofnun skilaði niðurstöðum sínum í vikunni.

Þar kemur fram að jarðvegurinn þar sem mengun var sjáanleg hafi verið fjarlægður. Jarðvegsmælingar sem voru framkvæmdar síðasta sumar í útveggjum þess svæðis hafi ekki gefið til kynna að mengun væri umfram skilgreind viðmiðunarmörk um mengaðan jarðveg. Vottur af bensíni í jarðvegi og í grunnvatni hafi hins vegar greinst á þessu ári í mælingum Eflu í jarðvegsholum sem staðsettar eru vestan við íbúðarhús að Suðurbraut 6 og 8.

„Styrkur rokgjarnra efna sem hefur greinst í innilofti í húsum að Suðurbraut 6 og 10 eru umfram þau viðmið með sænska umhverfisstofnunin hefur sett fyrir hreinsun á olíumenguðum jarðvegi. Sú mengun er talin stafa frá bensínmengunar í jarðvegi vegna leka frá bensíngeymi N1,“ segir jafnframt í niðurstöðu Umhverfisstofnunar en heilsuverndarmörk í grunnvatni hafa ekki verið skilgreind á Íslandi.

Umhverfisstofnun telur brýnt að ráðist verði í aðgerðir til að tryggja fullnægjandi hreinsun jarðvegs undir vegi og í kringum húsin við Suðurbraut 6, 8, 9 og 10. Þá telur stofnunin mikilvægt að tryggt sé að mengun á svæðinu sé innan skilgreindra heilsuverndarmarka.

„Stofnunin óskar eftir uppfærðri tímasettri úrbótaáætlun um vöktun og hreinsunaraðgerðir undir og í kringum íbúðarhús að Suðurbraut 6, 8, 9 og 10 vegna leka frá bensíntanki N1 á Hofsósi. Úrbótaáætlunin skal innihalda upplýsingar um þær hreinsunaraðgerðir sem áætlað er að grípa til, hvernig framgangur hreinsunaraðgerða verður metinn, upplýsingar um hve mikilli hreinsun er áætlað að ná með framgreindum aðgerðum, hvenær er gert ráð fyrir að hefja aðgerðir og hversu langan tíma er gert ráð fyrir að aðgerðirnar taki,“ segir í niðurstöðu Umhverfisstofnunar sem fer fram á að úrbótaáætlunin berist stofnuninni fyrir 10. maí.