Þingmaður og bæjarfulltrúi berjast um efsta sætið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tvö berjast um efsta sætið í forvali Vinstri grænna í norðvesturkjördæmi sem hefst í dag og stendur fram á sunnudag. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður flokksins í kjördæminu, vill leiða listann áfram en Bjarni Jónsson, sveitarstjórnarmaður í Skagafirði, sækist einnig eftir efsta sætinu. Alls eru átta i framboði.

Forval Vinstri grænna fyrir þingkosningar í haust er rafrænt. Opnað var fyrir atkvæðagreiðslu á miðnætti og geta flokksmenn kosið til klukkan fimm síðdegis á sunnudag. 

Þrjár sækjast eftir öðru til þriðja sæti: Sigríður Gísladóttir dýralæknir, sem einnig gefur kost á sér í fjórða sæti, Þóra Magnea Magnúsdóttir kennari og Þóra Margrét Lúthersdóttir, sauðfjár- og skógarbóndi. Lárus Ástmar Hannesson, grunnskólakennari og bæjarfulltrúi, María Hildur Maack umhverfisstjóri og Nanný Arna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi, sækjast eftir þriðja til fimmta sæti.

Kosningin er bindandi í þrjú efstu sætin en þó með þeim fyrirvara að niðurstaðan sé í samræmi við reglur um kynjaskiptingu.

Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Viðreisn og Píratar eru búin að velja efstu menn á lista í kjördæminu. Sjálfstæðisflokkurinn verður með prófkjör í júní. Miðflokkurinn verður með uppstillingu. Sósíalistaflokkurinn vinnur í rólegheitum að framboðsmálum sínum, þar verður ekki prófkjör. Flokkur fólksins hefur þá venju að kynna oddvita í öllum kjördæmum á sama tíma.